Fjölbrautaskóli Snæfellinga tekur til starfa í ágúst á þessu ári og undirbúningur hefur staðið yfir frá því í apríl síðastliðnum. Samið hefur verið við verktaka og er bygging skólans komin á fullt skrið. Undirbúningur annarra þátta skólastarfsins heldur einnig áfram af miklum krafti:

  • Á næstu vikum verða drög að skólanámskrá samin og ákveðið hvaða námsbrautir verða í boði í skólanum. Skólanámskráin verður birt á vef skólans (www.fsn.is), en hönnun og uppsetning vefsins er í undirbúningi og verður unnið að því að koma honum í gagnið á næstu vikum og mánuðum.

 

  • Auglýst hefur verið eftir aðstoðarskólameistara við skólann og er vonast til að hann komi til starfa sem fyrst. Í mars og apríl verður auglýst eftir kennurum og öðru starfsfólki og gert er ráð fyrir að ráðningum verði lokið að mestu fyrir apríllok.

 

  • Í mars verða haldnir kynningarfundir með 10. bekkingum á norðanverðu Snæfellsnesi og einnig verða foreldrar þeirra boðaðir til fundar. Á fundunum verður námsframboð skólans kynnt og kennsluhættir og skipulag kennslunnar útskýrt ítarlega. Kynningarfundirnir verða nánar auglýstir síðar.

 

  • Undanfarna mánuði hefur hópur 10. bekkinga úr grunnskólunum á svæðinu undirbúið stofnun nemendafélags við skólann og í mars er fyrirhugað að halda upphitunarhátíð fyrir nemendafélagið. Hátíðin verður kynnt betur þegar nær dregur.

 

  • Framundan er einnig mikil vinna með arkitektum hússins, VA arkitektum, bæði varðandi innréttingar og húsbúnað allan.   

 

  • Eins og gefur að skilja þarf skóli sem verður leiðandi í notkun upplýsingatækni að vera sérlega vel búin tæknilega og miklu skiptir að réttur tæknibúnaður sé valinn. Þess vegna voru fjórir reynslumiklir kerfisstjórar úr háskólum og framhaldsskólum fengnir til að greina þarfir skólans fyrir tæknibúnað og verður skýrsla þeirra tilbúin í byrjun apríl, en á grundvelli hennar verður tæknibúnaðurinn boðinn út. Kerfisstjóri skólans verður þá að öllum líkindum kominn til starfa og mun hann, í samráði við skólameistara, sjá um útboðið og síðan innkaup á tæknibúnaði.

 

  • Í maí verður unnið að innra skipulagi skólans, s.s. umsjónarkerfi, skólareglum, reglum um ástundun og viðveru og fleira. Þá verður námsráðgjöf vegna innritunar skipulögð og einnig innritunin sjálf, en hún fer fram í annarri viku júnímánaðar.

 

Í öllu starfi við undirbúning skólastarfsins verður unnið með það markmið að leiðarljósi að skapa góðan skóla í heimabyggð þar sem nemendur leggja metnað í að stunda nám sitt af kostgæfni, auk þess sem þeir njóta heilbrigðs félagslífs innan um jafnaldra sína í skólanum.

Guðbjörg Aðalbergsdóttir,

skólameistari