- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Dagana 20. og 21. maí var 17 manna hópur að störfum í Samkomuhúsinu í Grundarfirði við undirbúningsvinnu vegna Fjölbrautaskóla Snæfellinga.
Hópurinn var samsettur af fulltrúum ýmissa aðila og sjónarmiða, s.s. framhaldsskólanefnd sveitarfélaganna, fulltrúum frá menntamálaráðuneyti, frá foreldrum úr Stykkishólmi, Snæfellsbæ og Grundarfirði, fjarnema úr Grundarfirði, formanni húsnæðisnefndar sveitarfélaganna, auk aðfenginna ráðgjafa s.s. kennsluráðgjafa frá Háskóla Íslands, reynds framhaldsskólakennara (í fjarnámi m.a.) og skólameistara.
Menntamálaráðuneytið fékk Susan Stuebing, virtan bandarískan sérfræðing sem búsett er í Hollandi, til samstarfs við undirbúning að stofnun skólans.
Í stuttu máli sagt þá var verið að vinna hugmyndir um starfsemi skólans og reynt að skilgreina hugmyndafræði kennslunnar og námsumhverfisins.
Reynt er að sameina sjónarmið allra þeirra aðila sem hagsmuni hafa og komast að sameiginlegri framtíðarsýn.
Vinnuhópurinn hittist aftur mánudaginn 26. maí n.k. í Reykjavík og 20. ágúst í Ólafsvík til að halda vinnunni áfram.
Þann 13. júní er svo ætlunin að fá annan vinnuhóp til að taka þátt í að skapa þessa framtíðarsýn. Það verða fulltrúar nemenda, hópur skipaður um 16 nemendum af svæðinu, úr 9. og 10. bekk Grunnskólanna og af framhaldsskólastigi.