Framkvæmdir og undirbúningur fyrir malbikun stendur nú yfir af fullum krafti og segja má að bæjarfélagið sé meira eða minna undirlagt vegna þessa.

Undirbúningurinn hefur að mestu leyti gengið vel fyrir sig, en svæðið í kringum grunnskólann hefur tafist nokkuð og reyndist ekki unnt að ljúka þeim framkvæmdum fyrir setningu grunnskólans sl. mánudag eins og stefnt hafði verið að.  Þessar tafir eru m.a. tilkomnar vegna klapparvinnu sem reyndist erfiðari viðureignar en gert hafði verið ráð fyrir.

 

Staða verksins, á planinu við grunnskólann, er sú að verið er að ganga frá hitaveitulögnum en aðrar lagnir eru að mestu frágengnar þ.e.a.s. vatnsveitu-, klóak- og regnvatnslagnir.

 

Stefnt er að því að hitaveitulögnin verði frágengin næstkomandi sunnudag og þá verði mokað yfir alla skurði sem nú standa opnir á svæðinu vestan við grunnskólann.

Þegar hitaveitulagnir verða frágengnar n.k. sunnudag, hefst svo vinna við að taka plön og vegi sem malbika á við grunnskólann í réttar hæðir og jafna undirlagið. Það verður gert mánudag og þriðjudag í næstu viku.

Vegna þessarar vinnu við hitaveitulögnina og plönin má reikna með að svæðið vestan við grunnskólann lokist fyrir allri umferð frá og með föstudeginum 25.08.´06 og hugsanlega fram til þriðjudagsins 29.08.´06. Um er að ræða lokun frá efri hluta Borgarbrautar (við áhaldahúsið) og að Ölkelduvegi.

 

Akandi vegfarendum er bent á að hægt verður að komast að sundlaug og skólamannvirkjum, um bráðabirgðaveg sem gerður verður við hornið á raðhúsinu sem verið er að byggja við Ölkelduveg 1 – 7.  Ekið verður framhjá norðaustur horni hússins, og þaðan inná plan sundlaugarinnar og íþróttahússins.

 

Starfsfólki grunnskóla, íþróttahúss og tónlistarskóla, foreldrum barna og sundlaugargestum, er bent á að aka um Ölkelduveg þegar farið er til og frá skóla/sundlaug og nota bílastæðin við sundlaugina þ.e. stæðin sem eru sunnan við íþróttahúsið/sundlaugina, meðan á þessum framkvæmdum stendur.

 

Meira um malbikunarframkvæmdir:

Fyrirtækið Hlaðbær-Colas úr Reykjavík, sem annast sjálfa malbikunina, hefur undanfarna daga verið að undirbúa götur og plön undir sjálft malbikið.  Undirbúningurinn felst í því að mulningi er dreift á göturnar og þær lagaðar til með veghefli.  Því næst er mulningurinn valtaður og þá fyrst er gatan tilbúin undir malbikun. Íbúar við Grundargötu mega eiga von á því að gatan verði sópuð með götusóp næstkomandi mánudag.

 

Hlaðbær - Colas mun ljúka að mestu sinni undirvinnu á mánudag í næstu viku.

Sjálf malbikunin mun svo verða framkvæmd í framhaldi af því eða á þriðjudag í næstu viku.

 

Það sem áætlað er að verði malbikað að þessu sinni á vegum Grundarfjarðarbæjar er eftirfarandi;

  • Ölkelduvegur ásamt botnlagna.
  • Fellasneið ásamt botnlanga (sá hluti Fellasneiðar sem nú er án bundins slitlags).
  • Hrannarstígur (sá hluti sem nú er án bundins slitlags) ásamt botnlanga að raðhúsum Hrannarstígs 28-40.
  • Borgarbraut (frá gatnamótum Hlíðarvegs og að Ölkelduvegi).
  • Hlíðarvegur (frá Grundargötu og að gatnamótum Borgarbrautar).
  • Eyrarvegur (frá Nesvegi og að Sólvöllum).
  • Fagurhólstún (frá Eyrarvegi og að Grundargötu).
  • Ártún á iðnaðarsvæðinu við Kverná;  Efsti hluti götunnar á móts við gámastöðina.
  • Lóð gámastöðvarinnar að Ártúni 1.
  • Bílaplanið við tónlistarskólann / félagsmiðstöðina.
  • Bílastæði, plön og vegir vestan við grunnskólann og sundlaugina/íþróttahúsið. Athugið að ekki er gert ráð fyrir malbikun plansins fyrir sunnan íþróttahúsið að þessu sinni. Það kemur til af því að ennþá er verið að skoða staðsetningu fyrir ný íþróttamannvirki s.s. sundlaug.
  • Loks má geta þess að Vegagerðin mun malbika alla Grundargötuna á þessum sama tímapunkti og einnig mun Jeratún ehf. standa fyrir malbikun á lóð fjölbrautaskóla Snæfellinga.

 

 

Með von um góðan skilning og þolinmæði.

 

Jökull Helgason

Skipulags- og byggingarfulltrúi