- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nú er búið að steypa niður "skipið" sem er eitt af þremur leiktækjum sem sett verða niður í Þríhyrningnum í ár. Það eru verktakarnir Kristján Kristjánsson og Þorsteinn Friðfinnsson sem vinna að uppsetningu með starfsmönnum bæjarins.
Leiktækin eru af gerðinni Robinia, sem er lína leiktækja úr náttúrulegum viði frá framleiðandanum Vinci Play. Fyrirtækið Leiktæki og sport ehf. flytur inn og selur tækin. Allnokkur seinkun varð á afhendingu leiktækjanna, eins og á fjölmörgu öðru þessa mánuðina, en búið var að jarðvegsskipta undir leiktækjunum síðla sumars.
Íþrótta- og æskulýðsnefnd hefur haft forgöngu um hugmyndavinnu og undirbúning að framkvæmdum sem miða að því að gera Þríhyrninginn svokallaða að skemmtilegu fjölskyldu- og útivistarsvæði. Þríhyrningurinn hefur reyndar í áratugi haft slíkt hlutverk, en með ólíkum hætti þó.
Hér má lesa um sögu Þríhyrningsins og fyrirhugaðar endurbætur á svæðinu.
Í nýlegu aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar segir að í Þríhyrningi verði aðstaða til útikennslu fyrir leik- og grunnskóla, en skólarnir hafa nýtt svæðið talsvert til kennslu og útivistar. Sjá greinargerð hér bls. 48 og 64.
Fyrirtækið G.Run hf. veitti styrk upp í fyrirhuguð leiktækjakaup í Þríhyrninginn á 100 ára fæðingarafmæli Guðmundar Runólfssonar heitins, þann 9. október 2020. Með hliðsjón af því valdi íþrótta- og æskulýðsnefnd meðal annars þetta fallega leiktæki, skipið, til uppsetningar. Hin leiktækin tvö verða sett niður nálægt skipinu, eins og hönnun svæðisins gerir ráð fyrir.
Önnur framkvæmd sem áætluð er í ár í Þríhyrningi er að hlaða lítið eldstæði á svæðinu, samanber tillögu íþrótta- og æskulýðsnefndar og verður sagt nánar frá því fljótlega.
Jarðvegur sem grafinn er upp vegna framkvæmda á svæðinu er síðan nýttur í Orminn, sem er formuð jarðvegsmön, ætluð fyrir leik og sem setsvæði (brekka) fyrir viðburði og fleira. Ormurinn verður í mótun fram á næsta ár þar sem jarðvegur þarf að fá að síga í möninni áður en gengið verður frá yfirborði hennar með grasi o.fl.
Á meðan framkvæmdir standa yfir er æskilegt að umferð sé í lágmarki um garðinn og að ekki sé freistast til að leika á svæðinu.
Á myndunum fyrir neðan má sjá nýja loftmynd af Þríhyrningi (úr vefsjá Grundarfjarðarbæjar) en á myndinni sést lögun "Ormsins" vel.
Einnig má sjá myndir af gormatæki og jafnvægisslá úr Robinia-línunni, sem verða sett upp á næstunni.