Kirkjufellið og kajakræðarar að kvöldi 30. júlí 2020.
Kirkjufellið og kajakræðarar að kvöldi 30. júlí 2020.

Kæru íbúar! 

Á Vesturlandi öllu eru nú samtals 44 í sóttkví og 12 ný smit nú seinnipartinn í júlí og fyrstu dagana í ágúst, þar af eitt nýtt í gær á Akranesi.

Á hádegi í dag, miðvikudaginn 5. ágúst 2020, voru 11 íbúar í Grundarfirði komnir í sóttkví, skv. upplýsingum sóttvarna hjá HVE, en ekkert nýtt smit hefur greinst hér enn. 

Eins og fram kom í fréttum í dag, greindust 9 ný smit á landinu öllu í gær og skv. covid.is eru nú 91 manns í einangrun og 746 í sóttkví.

Tjaldsvæðið

Mikið var af gestum á tjaldsvæðinu um verslunarmannahelgina. Þá höfðum við starfsfólk á vakt, til aðstoðar og einnig til að gæta þess að virtar væru reglur um 4 metra bil milli ferðavagna og tjalda. Kristín Halla, sem hefur umsjón með tjaldsvæðinu, segir að það hafi hægst mikið á gestakomum nú strax eftir helgina. Veðurspáin er óhagstæð til ferðalaga næstu daga þannig að Íslendingarnir eru flestir haldnir heim á leið. Mestmegnis eru gestir okkar nú erlendir ferðamenn.

Við fylgjum reglum og sótthreinsum eftir þörfum, en hert var á þrifum og nýjar merkingar settar upp fyrir helgina. Kristín segir að mjög vel hafi gengið að framfylgja 4 metra reglunni og að gestir vandi sig við að standa ekki ofaní næsta manni, við uppvask eða bið á salernin. Einnig virðist fólk spritta sig mjög vel, við sjáum það á notkun á handspritti yfir daginn. Við þökkum gestum okkar komuna og fyrir sýnda tillitssemi.

Rauði krossinn til aðstoðar

Ég hef sett mig í samband við Sævöru Þorvarðardóttur formann Grundarfjarðardeildar Rauða krossins. Hún vildi árétta, að félagar í deildinni eru nú sem fyrr reiðbúnir til aðstoðar. 

Þau sem eru í sóttkví, einangrun eða varnarsóttkví geta því notfært sér hjálparsíma Rauða krossins, ef þau þurfa aðstoð við að fá aðföng úr verslunum, lyf eða aðrar nauðsynjar. Hringt er í 1717, hvort sem við þurfum aðstoð hér í Grundarfirði, eða annars staðar á landinu, en haft er samband við deildina okkar þegar við á. 

Björg