Miðgarður, Grundarfjarðarhöfn, 27. júlí 2020. Grundarmön í baksýn.
Miðgarður, Grundarfjarðarhöfn, 27. júlí 2020. Grundarmön í baksýn.

Kæru íbúar! 

Á Vesturlandi öllu eru nú samtals 42 í sóttkví og 11 ný smit komu upp nú seinnipartinn í júlí og fyrstu dagana í ágúst.

Á hádegi í dag, þriðjudaginn 4. ágúst 2020, voru 8 íbúar í Grundarfirði komnir í sóttkví, skv. upplýsingum sóttvarna hjá HVE. Ekkert nýtt smit hefur greinst í Grundarfirði nú í sumar og ekki önnur smit á Snæfellsnesi, frá því að eitt smit greindist í síðustu viku í Ólafsvík.

Í pósti frá umdæmislækni sóttvarna hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands segir í dag:

“Á rúmri viku hefur ástandið [á starfssvæði HVE] í Covid-19 faraldrinum versnað til mikilla muna og eru nú 10 alls í einangrun á Vesturlandi og Húnaþingi vestra. Þá hefur fjölgað mjög í sóttkví síðustu daga. Það er ekki aðeins fjölgun á staðfestum smitum með stroksýni heldur hafa mótefnamælingar hjá sjö einstaklingum í Húnaþingi vestra staðfest gamla Covid-19 sýkingu en áður hafði eitt slíkt tilvik verið staðfest í Búðardal. [...] 
Eins og kunnugt er af fréttum voru öll 612 sýni í skimunarrannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á Akranesi í fyrradag neikvæð. Þess er vænst að Íslensk erfðagreining, í samvinnu við rakningarteymið, fari í frekari skimunarrannsókn á Vesturlandi í sambandi við ný tilvik …”

Leikskólabörnin aftur í skólana

Á morgun, miðvikudaginn 5. ágúst, mæta leikskólabörn aftur eftir sumarfrí, bæði í Leikskólanum Sólvöllum og leikskóladeildinni Eldhömrum. Foreldrar hafa fengið skilaboð frá Önnu leikskólastjóra og Sigurði grunnskólastjóra, um starfið næstu dagana. 

Biðlað er til forráðamanna um að einungis einn fylgi hverju barni, til og frá skóla. Handspritt er fyrir foreldra í anddyri, á báðum stöðum, og þeir beðnir um að spritta hendur þegar komið er með börnin og þau sótt. Sýna þarf tillitssemi í fataklefum og anddyri og við biðjum foreldra eindregið um að halda tveggja metra fjarlægð.

Framkvæmdir í sumar, inntaka nýrra barna og frekari skipulagning 

Í sumar fóru fram framkvæmdir á leikskólanum sem miða að því að skipta skólahúsnæðinu betur upp, m.v. starfsemi þriggja deilda. Uppsetning á færanlegum millivegg er langt komin í nýrri hluta leikskólans. Veggurinn skiptir rýminu betur upp og býr til betra næði í hvoru rými. Lagnir voru endurbættar í eldri hluta leikskólahúsnæðisins, á músadeild, og nýr geymsluskúr var settur upp á lóð. 

Börn fædd 2015 eru nú komin á Eldhamra og því eru færri nemendur á Sólvöllum til að byrja með. Börnunum mun fjölga þegar líður á haustið. Að höfðu samráði við sóttvarnalækna hjá HVE, ákvað leikskólastjóri í dag að inntaka og aðlögun eins árs barna yrði óbreytt nú í ágúst. 

Dagurinn í dag var starfsdagur og fór í að undirbúa komu nemenda á morgun. Næstu dagar fara enn frekar í skipulagningu og samtal leikskólastjórnenda og foreldra. Leikskólastjóri sendir foreldrum annan póst, með frekari upplýsingum, fyrir vikulok. 

Sundlaugin 

Eins og ég sagði frá í pistli fimmtudaginn 30. júlí sl. þá höfum við þurft að setja á fjöldatakmarkanir í sundlauginni. Fjöldinn ræðst einkum af því að virða þarf tveggja metra fjarlægð á milli einstaklinga í öllum rýmum, skv. tilmælum Almannavarna. Að fenginni reynslu færðum við auglýstan hámarksfjölda í búningsklefum úr 15 í 12, um helgina. Leyfður fjöldi í heitum pottum er 1-2, nema um fjölskyldur sé að ræða og hámarksfjöldi í vaðlaug er 6 manns. Börn fædd árið 2005 og yngri eru ekki talin með. Mælst er til þess að gestir séu ekki lengur en 1,5-2 klukkustundir í sundi. Gestir fá leiðbeiningar um þetta við komu í laugina. Spritt er í boði fyrir gesti í afgreiðslu og í klefum og strax á föstudaginn ákváðum við að bæta við einum starfsmanni, tímabundið, vegna aukinna þrifa. Hér má finna auglýsingu um þetta

Mikið var að gera í sundlauginni alla helgina, enda talsvert af fólki í bænum, m.a. gestir á tjaldstæðinu, og mynduðust biðraðir um tíma við laugina. Ég heyrði í starfsfólki sundlaugar í dag, sem sagði að allur meirihluti gesta hefði sýnt þessu ástandi skilning. Fyrir það erum við þakklát. Höldum áfram að virða tveggja metra regluna og hjálpast að við að láta þetta ganga upp. 

Kjörbúðin aftur með séropnun

Kjörbúðin hefur auglýst að frá og með deginum í dag sé aftur tekin upp séropnun fyrir eldra fólk og viðkvæma, á milli 9-10 alla virka daga. Við hin, sem ekki þurfum að nýta þessa tíma, þurfum að taka tillit til þessa og koma í búðina alla aðra tíma dagsins. 

Líðan okkar 

Á upplýsingafundi Almannavarna og landlæknisembættis á RÚV í dag, 4. ágúst, minnti landlæknir á það, að kvíði og áhyggjur aukist hjá mörgum nú þegar Covid-smit aukast aftur. Hún vakti athygli á því að á vefnum covid.is er að finna kafla sem heitir “Líðan okkar” og þar er safnað saman ýmsum upplýsingum og leiðbeiningum um aðstoð við þau sem finna fyrir kvíða og áhyggjum. Þar er bent á hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og ýmsar slóðir á gagnlegt efni, á íslensku og öðrum tungumálum. 

Sóttkví og heimkomusmitgát 

Reglur um sóttkví er að finna hér, á vefnum covid.is og leiðbeiningar, m.a. þetta myndband með leiðbeiningum um heimasóttkví.

Að lokum ítreka ég það sem áður er sagt um að nauðsynlegt er að virða reglur um heimkomusmitgát og fara eftir leiðbeiningum sem settar eru um þær

Hjálpumst að við þetta stóra verkefni okkar og tökum sameiginlega þátt í baráttunni. Veiran er seig, en við verðum að reynast seigari. 

 

Björg