- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kæru íbúar!
Eins og fram kom í frétt á vef Grundarfjarðarbæjar í morgun, þá hefur smit af völdum kórónaveirunnar COVID-19 nú greinst í Grundarfirði.
Rakning fór af stað hjá rakningateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Rakning felst í að haft er samband við þau sem viðkomandi hefur verið í nánum samskiptum við og eftir hlutlægum viðmiðum er metið hverjir þurfi að fara í sóttkví. Í morgun lá fyrir að sjö einstaklingar sem smitinu tengjast væru komnir í sóttkví. Einn til viðbótar var fyrir í sóttkví í tengslum við annað smit. Frekari sýnatökur fóru fram hjá HVE í dag, en engar frekari upplýsingar liggja fyrir um útbreiðslu smita.
Alls eru 551 smitaðir í einangrun á landinu öllu, þar af eru 24 á Vesturlandi. Í Stykkishólmi eru í dag 13 manns í einangrun og 9 í sóttkví og hafa engin ný smit greinst í fjóra daga. Á Akranesi eru 9 í einangrun og 13 í sóttkví og í Borgarbyggð er 1 í einangrun og 3 í sóttkví.
Ráðstafanir Grundarfjarðarbæjar
Síðustu vikur, einkum eftir að smit komu upp í Stykkishólmi og Akranesi, skerptum við á sóttvörnum og endurmátum viðbragð okkar. Eftir fundi og ákvarðanir dagsins höfum við nú enn hert á ráðstöfunum og munum endurmeta þær með hliðsjón af stöðunni hverju sinni.
Covid-borðinn er aftur kominn upp á bæjarvefnum og má þar lesa uppfærðar upplýsingar um ráðstafanir og viðbrögð stofnana bæjarins.
Rétt er að nefna hér helstu ráðstafanir í skóla- og tómstundastarfi:
Íbúar eru hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum frá skólunum og öðrum stofnunum bæjarins.
Aðrar stofnanir
Rétt er að vekja athygli á því að lokað hefur verið fyrir heimsóknir gesta og ættingja til íbúa Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls þar til annað verður tilkynnt. Sjá hér.
Í Fjölbrautaskóla Snæfellinga fer nú allt skólastarf fram í fjarnámi.
Persónulegar sóttvarnir
Það jákvæða í stöðunni núna, þegar svonefnd þriðja bylgja Covid gengur yfir, er að við kunnum þetta og höldum því ró okkar. Við fórum í gegnum þetta fyrr á árinu. Þetta er ekki gaman og ekki auðvelt, en við getum þetta.
Við höldum áfram að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum almannavarna og landlæknis, hvert og eitt. Það er talað um persónulegar sóttvarnir, þ.e. að hver og einn hugi að sínum eigin sóttvörnum, að forða sér og sínum frá smiti. Það gerum við t.d. með því að þvo hendur og spritta, forðast fjölmennar samkomur, halda okkur í hæfilegri fjarlægð frá öðrum og nota andlitsgrímur þar sem ekki er hægt að virða fjarlægðarmörk eða í sérlega viðkvæmum aðstæðum.
Með eigin vörnum aukum við jafnframt sóttvarnir annarra. Við vitum að eldra fólk og þau sem hafa langvinna sjúkdóma eru sérstaklega viðkvæm. Auk þess höfum við nú séð að áhrif Covid-veirunnar geta verið alvarleg, jafnvel fyrir ungt og hraust fólk. Þess vegna eru sóttvarnir ekki bara persónulegar, heldur sinnum við þeim af tillitssemi og virðingu við aðra.
Við sendum hlýjar kveðjur til þeirra sem veikst hafa og þeirra sem ekki geta notið samveru við aðra.
Björg