Tumi tígur og Bangsímon eru gluggabangsar Ráðhússins og
Tumi tígur og Bangsímon eru gluggabangsar Ráðhússins og "heilsa" m.a. nemendum á leið í grunnskólann.

Kæru íbúar!

Í dag voru 24 smit á Vesturlandi, en fjöldi smita óbreyttur á Snæfellsnesi. Í sóttkví á Vesturlandi eru 472, þar af 28 hjá okkur í Grundarfirði, sem eru 11 færri en í gær. 

Vöndum okkur í vikunni!

Á fréttafundi dagsins kom fram hjá sóttvarnalækni að þessi vika myndi ráða úrslitum um hvort herða þyrfti enn frekar á aðgerðum, eins og með frekari takmörkunum á samkomum. Við þurfum því virkilega að vanda okkur núna til að enn betur takist að hefta útbreiðslu veirunnar og ekki þurfi að grípa til enn harðari aðgerða.

Í auglýsingu sem birt var á vefsíðum sveitarfélaganna á Vesturlandi í dag er sett fram áminning aðgerðastjórnar almannavarna Vesturlands um fjarlægðamörkin. Þar segir: "Lágmark 2 metrar milli manna og 15 mínútur í einu". Þessi mörk gilda bæði í almannarými og einkarými, þ.e. á opinberum stöðum, vinnustöðum, verslunum og einnig inná heimilum. Þetta gildir bæði innan og utan dyra. Þetta gildir um "alla aðra en þá sem við búum með í heimili" eins og segir í fyrrnefndri frétt á RÚV í dag.

Við þurfum að læra þetta og venja okkur á þetta, alveg eins og við gátum lært að hætta að heilsast með handabandi fyrir nokkru síðan.

Upplýsingar og þýtt efni

Enn má benda á vel fram sett efni á vefnum www.covid.is

Ég vil líka benda á aðgengilegt og gott efni sem alltaf er að bætast við á RÚV, eins og fréttir sagðar á auðskildu máli - t.d. þessa hér um sóttkví.

Ég er líka sérstaklega ánægð með þá nýjung RÚV að setja fram á pólsku helstu punkta úr daglegu fréttafundunum kl. 14, sjá hér.
Fyrir viku síðan var ég einmitt í samskiptum við forstöðumann Fjölmenningarseturs á Íslandi og spurðist fyrir um hvort einhvers staðar væri hægt að nálgast helstu "bita" úr þessum góðu og upplýsandi fundum á pólsku sérstaklega. Það var ekki hægt þá, en forstöðumaðurinn sagði að þetta yrði skoðað.

Í sömu samskiptum var mér bent á að starfsfólk Fjölmenningarseturs væri að vinna með almannavörnum og félagsmálaráðuneyti að því að þýða efni síðunnar www.covid.is (eða mikilvægustu hlutana) á fleiri tungumál. Vefurinn var fyrst þýddur á ensku og pólsku, en nú er hann kominn á átta tungumál, fyrir utan íslenskuna. Það finnst mér til fyrirmyndar. 

Þessi skilaboð eru nefnilega svo mikilvæg og þurfa að ná til allra sem búa á Íslandi. Við erum öll á sama báti, árangurinn ræðst af því að við tökum öll þátt í þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að ráða niðurlögum veirunnar; að þekkja reglurnar til að geta virt þær og farið eftir þeim.  Upplýsingar eru lykillinn og tungumál má ekki vera hindrun í að upplýsingar rati til fólksins í landinu.

Skólastarfið

Ég átti tölvufund með Önnu leikskólastjóra og Sigurði grunnskólastjóra í dag. Þau segja að skólastarfið gangi vel. Unnið er eftir sama fyrirkomulagi og í síðustu viku. Nemendur eru jákvæðir og virða þessi hólf sem starfað er í og við vöndum okkur við að hefta samgang milli hólfa, bæði starfsfólks og nemenda. 

Upplestur og æfingar

Í dag mætti hún Hjödda á kórloftið í kirkjunni og hélt áfram að lesa úr bókinni Ofurefli eftir Einar Kvaran. Upplestrinum var streymt yfir á Dvalarheimilið Fellaskjól, en hann er jafnframt aðgengilegur fyrir aðra; hér er slóð til að hlusta á upplesturinn. Takk Hjödda!

Lilja Magnúsdóttir heldur áfram að lesa úr bókinni Kattasamsærið og má finna upplesturinn á Facbook-síðu Skólabókasafnsins.   

Rut Rúnars gerir æfingamyndbönd fyrir heilsueflingu 60+ sem eru afslöppuð og heimilisleg - og Lilja Magnúsdóttir var með æfingu sem hentar öllum og finna má á Facebook-síðu Líkamsræktarinnar. Vel gert stelpur!

Síðan er alveg ótrúlegt að fylgjast með því hvað snjóinn tekur hratt upp í bænum og auðveldara verður að komast um. Það er aldrei mikilvægara en nú, að nýta umhverfið okkar, til hreyfingar og heilsubótar.

Björg