- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kæru íbúar!
Það eru þrjú ný smit á Vesturlandi frá því í gær, en ekkert nýtt á Snæfellsnesi.
Í gær sagði ég frá samvinnuverkefni Rauða krossins, og þar með deildarinnar okkar í Grundarfirði, sem mun veita aðstoð við að nálgast aðföng úr verslunum, lyf eða aðrar nauðsynjar, fyrir þau sem þurfa. Hringja má í hjálparsímann 1717.
Í 1717 er líka hægt að fá ráðgjöf eða hlustun, ef eitthvað hvílir þungt á fólki.
Ég vil líka benda á að félagsþjónusta á svæðinu okkar er veitt af Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga. Þar eru ráðgjafar í félagsþjónustu sem hægt er að ræða við eða fá í heimsókn, ef þess gerist þörf. Hringja má í síma 430 7800, það er opið alla virka daga frá 9 – 12 og 13 – 15.
Það má líka nefna að Heilbrigðisstofnun Vesturlands, HVE, býður upp á sálfræðiþjónustu að fenginni tilvísun heilsugæslulæknis. Símanúmer á heilsugæslunni er 432 1350, en vaktúmer heislugæslu er 1700, utan dagvinnutíma.
Einnig má minna á netspjall á vefnum www.heilsuvera.is og svo upplýsingar á vefnum www.covid.is
Gestastofa Snæfellsness, Breiðabliki
Stjórn Svæðisgarðsins Snæfellsness hefur, í ljósi aðstæðna, ákveðið að loka Gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki tímabundið frá og með mánudeginum 30. mars. Tíminn verður nýttur til vinnu og undirbúnings, en opnað verður aftur um leið og hægt er.
Það má líka minna á nýju fréttabréfin frá Svæðisgarðinum - sjá hér.
Fjölbrautaskóli Snæfellinga
Nemendur Fjölbrautaskóla Snæfellinga, FSN, eru nú allir í fjarnámi, eins og aðrir framhaldsskólanemar.
Kennarar og nemendur voru vel í stakk búin að takast á við þessar breytingar þar sem fyrirkomulag námsins hefur alltaf verið með líku sniði og fjarnám. Nemendur sækja námsefni og fyrirmæli kennara á netið, gegnum Moodle, og skila verkefnum sömuleiðis þar í gegn. Kennarar nýta sér myndbönd til að setja fram efni og leiðbeiningar.
Í Skessuhorni vikunnar var þetta viðtal við Hrafnhildi Hallvarðsdóttur skólameistara. Hún segir að skólahald síðustu tveggja vikna hafi gengið ótrúlega vel miðað við aðstæður. Stundaskrá er óbreytt og kennarar kenna að heiman og hitta nemendur í gegnum forritið Teams.
Upplestur
Ég minni á áframhaldandi upplestur Lilju Magnúsdóttur á barnabókinni Kattasamsærið en fylgjast má með því á Viskubrunni, bókasafni og upplýsingaveri Grunnskóla Grundarfjarðar.
Útvarp Klifurfell
Útvarp Klifurfell - http://utvarp.klifurfell.is - er nýjasta útvarpsrásin og hún er komin í loftið. Þættir fara að hefjast, en það er undir okkur komið að leggja til efnið eða koma með hugmyndir um áhugavert efni.
Ég vil hvetja ykkur til að leggja fram hugmyndir eða bjóða ykkur fram í létta dagskrárgerð. Við þekkjum þetta frá bæjarhátíðum síðustu árin, Útvarp Grundarfjörður - nema að það hefur aldrei verið auðveldara að taka upp efni til að útvarpa og við þurfum ekki að mæta á staðinn.
Það má hafa samband við hana Mörtu Magnúsdóttur í síma 840 8045, með tölvupósti á netfangið klifurfell@outlook.com eða með skilaboðum í gegnum www.facebook.com/klifurfell
Nýtum svo góða veðrið og hreyfum okkur úti - vorið er handan við hornið!
Björg