- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kæru íbúar!
Í dag var fyrsti formlegi fjarfundurinn haldinn hjá Grundarfjarðarbæ, á grundvelli nýlegrar breytingar á sveitarstjórnarlögum sem heimilar slíka fundi. Það var skipulags- og umhverfisnefnd sem hélt sinn 214. fund og úthlutaði sex lóðum skv. umsóknum. Fundarmennirnir sjö voru hver á sínum stað, í fjarfundi. Síðustu vikurnar höfum við notast við fjarfundi hjá Grundarfjarðarbæ, en það eru óformlegir fundir starfsfólks sín á milli og svo upplýsingafundir bæjarstjórnar og bæjarstjóra. Í sveitarstjórnarlögum eru nákvæm fyrirmæli um hvernig halda skuli fundi í bæjarstjórn og nefndum. Samkvæmt þeim og samþykkt um stjórn Grundarfjarðarbæjar þurfa allir fundarmenn að vera saman komnir á þeim stað sem fundarboð greinir. Síðan eru reglur um hvernig eigi að halda fundinn, greiða atkvæði með handauppréttingu, ganga frá fundargerð og undirrita hana á staðnum.
Bæjarstjórn ákvað þegar ljóst var hvert stefndi að kalla ekki saman fólk á sama stað til fundahalda.
Í viðbragðsáætlun frá 10. mars sl. voru lagðar línur um að starfsfólk og nefndir myndu halda fjarfundi í staðinn fyrir “staðfundi” þegar breyting á sveitarstjórnarlögunum lægi fyrir.
Fyrir þau sem eru áhugasöm um hvernig þetta gengur fyrir sig, þá er boðað til fjarfundar með hefðbundnu fundarboði, sendur hlekkur á fjarfundinn á netinu og þar “hittast” nefndarmenn, þ.e. með hljóði og mynd. Formaður stjórnar fundi og starfsmaður ritar fundargerð sem sýnd er fundarmönnum á skjánum um leið og hún er lesin upp í fundarlok með hefðbundnum hætti. Allir fundarmenn fá svo fundargerðina senda í tölvupósti og senda til baka rafrænt samþykki sitt fyrir fundargerðinni sem síðan er haldið til haga. Fundargerðir eru svo undirritaðar formlega þegar nefndin hittist næst.
Upplestur fyrir íbúa Fellaskjóls
Mánudagskvöldið 16. mars sl., fyrsta dag í samkomubanni, var haldinn fjarfundur fulltrúa félagasamtaka í bænum, safnvarða bókasafnanna okkar og fleiri. Á fundinum var rætt hvernig hægt væri að styðja við viðkvæma hópa á komandi vikum, með ýmsum hætti, einkum eldri íbúana okkar. Fundarfólk hefur ekki setið auðum höndum og í gær sagði ég frá frétt Skessuhornsins um framtak þeirra Ágústu, Lilju og Rutar til að fá okkur til hreyfa okkur heima í stofu; #stofuleikarnir
Annað verkefni birtist okkur í dag. Það var upplestur fyrir íbúa á Fellaskjóli með útsendingu úr kirkjunni.
Hún Lilja Magnúsdóttir, safnvörður á skólabókasafninu, og stöllur hennar í leshópnum Köttur úti í mýri, fengu hugmyndina og gekk Lilja í að hrinda henni í framkvæmd í samvinnu við sr. Aðalstein Þorvaldsson og Þ. Mána Þorkelsson. Þeir útfærðu þetta nánar og gerðu tæknilega kleift og í dag var svo fyrsta upplestrinum streymt yfir á Fellaskjól. Hún Hjödda, Hjördís Hlíðkvist Bjarnadóttir, las úr bókinni Ofurefli eftir Einar Kvaran. Það er svo alger bónus að fleiri geta nýtt sér að hlusta á upptöku af upplestrinum gegnum Youtube-rás Grundarfjarðarkirkju. Raunar er ekkert því til fyrirstöðu að senda út annars konar efni, með þessum hætti. Takk innilega fyrir þetta framtak snillingar!
Fleiri sögur
Baðstofumenningin er greinilega að taka sig upp aftur, nú þegar við þurfum að halda okkur meira heima fyrir. Hún Ragnhildur Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness býr á Álftavatni í Staðarsveit og er mikil sagnakona. Hún gekkst fyrir 10 daga snæfellskri áskorun þar sem sagðar eru sögur í ýmsu formi. Hér er Ragnhildur sjálf með sitt framlag og hér má hlusta á sagnameistarann Inga Hans segja söguna af honum Viggó óttalausa. Í kvöld var það svo hann Guðjón Jóhannesson bóndi í Syðri-Knarrartungu sem flutti sinn snilldarkveðskap og skoraði jafnframt á Rósu á Votalæk, Staðarsveit að setjast fyrir framan tölvuna annað kvöld kl. 20.
Fylgjumst með næstu kvöld - þetta verður eitthvað!
Björg