- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kæru íbúar!
Um leið og það er mikilvægt að fylgjast með fréttum og tilkynningum um það sem í gangi er þessa daga og vikur, þá hafa sérfræðingar ráðlagt okkur að taka líka fréttahvíld og takmarka fréttalestur eða áhorf. Ekki sé hollt að límast yfir öllum fréttum og hreinlega "fá COVID á heilann". Hægt er að taka undir það. En ef það er eitthvað sem við ættum að fylgjast með, þá eru það blaðamannafundirnir kl. 14 í sjónvarpinu. Þar eru áreiðanlegar upplýsingar, mikilvægar og viðeigandi, settar fram á skýran hátt af því fólki sem stendur á bak við ráðstafanir hverju sinni. Æsingalaust og af fagmennsku. Ég hvet þau ykkar sem viljið takmarka lestur eða áhorf á fréttatíma, að velja þessar upplýsingar. Upplýsingar auka á öryggi okkar, en þurfa ekki að yfirtaka daglegt líf okkar.
Fjarnám í tónlist
Eins og komið hefur fram munu tónlistarkennararnir Baldur og Bent kenna nemendum sínum í fjarkennslu á næstu vikum. Í orðsendingu frá Bent inná Facebook-síðu Tónlistarskólans í gærkvöldi bauð hann nemendum og foreldrum til „prufukeyrslu“ á fjarkennslustund á morgun, sunnudag kl. 15:00. Í orðsendingunni segir hann:
Þetta er nýtt hjá okkur öllum og við þurfum öll að hjálpast að við að læra á nýja tækni og tileinka okkur þau tækifæri sem í þeim felast. Til þess að koma okkur af stað langar mig að bjóða nemendum og foreldrum til "prufukeyrslu" á hugbúnaðinum n.k. sunnudag kl 15:00.
Spennandi tækifæri og um að gera að prófa þetta!
Björg