Kæru íbúar!
Skólastarfið gengur vel, eftir því sem skólastjórarnir segja.
Anna leikskólastjóri segir að þau séu að finna taktinn og heilt yfir hafi gengið vel í dag. Hún finnur fyrir samstöðu í þessu öllu og samhug. Starfsfólk leikskóla geri sitt besta til að láta þetta ganga upp og sömuleiðis foreldrar. Takk fyrir það!
Í grunnskólanum eru nemendur að átta sig á breytingunum og laga sig að þeim, segir Sigurður skólastjóri. Það sé krefjandi að vera í sama umhverfi heilan dag, allt uppbrot sé nauðsynlegt og gott og unnið er með áherslu á að brjóta upp daginn. Kennarar eru ýmist byrjaðir eða að undirbúa fræðslu um veiruna. Það er magnað að geta strax gengið að allskonar góðu kennsluefni um það, sem hæfir mismunandi aldri. Opinberir aðilar hafa greinilega staðið sig vel í að útbúa efni á mettíma, sem ber að fagna. Kennsluvefur RÚV hjálpar mikið, segir Sigurður.
Tónlistarskólinn
Síðustu daga hefur starfsfólk Tónlistarskólans endurskipulagt námið og fengu foreldrar bréf í dag. Kennsla hefst á morgun og fyrirkomulagið verður þannig:
Nú fara einkatímar grunnskólanemenda fram eftir að skóla lýkur. Færa þurfti til einhverja tíma til að takmarka fjölda nemenda í húsinu hverju sinni. Hóptímar falla niður, s.s. hljómsveitaræfingar, tónfræði, forskóli og hóptímar í söng. Alexandra og Linda taka á móti nemendum í tónlistarskólanum og allar tilheyrandi ráðstafanir eru gerðar. Baldur og Bent verða með fjarkennslu frá Reykjavík. Nemendur þeirra mæta í tíma í tónlistarskólanum eða þá að þeir taka tímann heima hjá sér, ef þeir kjósa það. Þetta eru þær tvær leiðir sem tónlistarskólar landsins virðast vera að fara, annað hvort fjarnám og einkatímar í bland eða einungis fjarnám. Margir tónlistarskólar eru reyndar þegar farnir að nota fjarnám.
Bókasafnið
Bókasafnið í Grundarfirði er opið fyrir lánþega og sinnir minnkandi upplýsingagjöf við ferðafólk. Fyrst um sinn verður lokað inn í Þórðarbúð og Bæringsstofu.
Gott er fyrir eldri borgara og fólk með viðkvæma heilsu að koma milli kl. 13 og 14 meðan húsnæðið er nýhreinsað. Annars er opið mánudaga-föstudaga kl. 13:00-17:00.
Bókasöfnin hafa að sjálfsögðu miðað starfsemi sína út frá því sem er í gangi í dag. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum lifir veiran í allt að 24 tíma á pappír. Bækur sem koma inn eru þvegnar að utan og geymdar í 2 daga fyrir næsta útlán.
WC í samkomuhúsinu
Það er rétt að minnast á að við höfum nú haft salernin í anddyri samkomuhússins opin í viku. Kjörbúðin og Sögumiðstöðin vísa ferðafólki þangað. Ferðamönnum hefur snarfækkað, en rétt er að vekja athygli á að þarna er þó enn opið.
Verkefni dagsins
Í dag átti almannavarnanefnd Vesturlands fjarfund með sóttvarnalæknunum þremur á svæði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Í nefndinni sitja fulltrúar lögreglustjóraembættisins, bæjarstjórar, oddvitar minni sveitarfélaga, slökkviliðsstjórar, fulltrúar af hálfu RKÍ og svæðisstjórnar björgunarsveitanna. Farið var yfir stöðu mála á svæðinu og þær ráðstafanir sem sveitarfélög hafa gripið til. Engin smit hafa enn greinst á Vesturlandi, en fólki í sóttkví fjölgar ört.
Forstöðumenn stofnana hjá Grundarfjarðarbæ áttu góðan fjarfund milli 16 og 17 í dag. Farið var yfir stöðu mála hjá hverri stofnun, helstu áskoranir og sérstaklega rætt um upplýsingagjöf.
Á skíðum
Veðrið í dag var frábært og skíðalyftan opin! Rut hjá Skíðadeildinni sagði að það hefði verið flott færi og um 20-25 manns í brekkunni í dag.
Nýtum tækifærið meðan við getum!
Það er ekki bara hægt að skíða í brekkunum ... Mynd: Rut Rúnarsd.
Björg