Kæru íbúar!
Í dag var fyrsti skóladagur hjá börnum í leik- og grunnskóla, eftir nýju fyrirkomulagi í samræmi við lögin tvenn, sem sett voru fyrir fjórum dögum, um takmörkun á skólastarfi og takmörkun á samkomuhaldi. Skólastjórarnir sögðu mér seinnipartinn í dag, að dagurinn hefði gengið vel. Skipulagið hafi bara gengið nokkuð vel upp í báðum skólum, mikil samstaða sé meðal starfsfólks og grunnskólanemendur hafi virt þessi ósýnilegu landamerki, sem þeim eru nú sett. Foreldrar sýni þessu fyrirkomulagi mikinn skilning og umburðarlyndi. Allir eru greinilega að gera sitt besta í að láta þetta nýja, tímabundna lífsmynstur ganga upp.
Ég nefni tvö dæmi um það sem kallar á mikla aukalega vinnu. Annað er gríðarleg áhersla á þrif og sótthreinsun, sem skólanir taka mjög alvarlega. Hitt er matartíminn í grunnskóla sem tekur miklu lengri tíma. Öllum börnum er nú skammtað á diska og borða þau í þeim sex starfseiningum sem skólinn starfar í. Einn nemandi á miðstigi grunnskólans hafði á orði í dag, að þetta væri bara eins og á hóteli, þau fengju matinn og allt uppí hendurnar!
Mér finnst ástæða til að hrósa öllum þeim sem nú leggja mikið á sig að láta þetta ganga upp; stjórnendum og starfsfólki skólanna, nemendum og foreldrum. Á meðan við getum haldið úti skólastarfi alla daga, þannig að sem flestir komist í skólana sína - haldið venjubundnum takti náms og leiks, þó með takmörkunum sé - þá er það gríðarlega mikils virði. Við skulum hins vegar alveg gera okkur grein fyrir því að þetta er viðkvæm staða og getur breyst skyndilega.
Verkefni dagsins
Af verkefnum dagsins má nefna að fyrirkomulag náms og kennslu í Tónlistarskólanum er í nánari skoðun. Í dag og á morgun, miðvikudag, verður ekki tónlistarkennsla. Meira síðar.
Mikið er að gera hjá áhaldahúsi við snjómokstur. Við leggjum mikið uppúr að halda gönguleiðum greiðfærum. Við trúum því að það fari líka bráðum að glitta í vorið - lóan er víst komin!
Bæjarstjórn átti góðan og skilvirkan upplýsingafund seinnipartinn í dag, þar sem við fórum yfir stöðu mála og ræddum áherslur - í fjarfundi að sjálfsögðu. Fundum nefnda hefur verið slegið á frest í bili. Allar sveitarstjórnir bíða eftir því að samþykkt verði frumvarp í þinginu, sem heimilar að nefndarfundir fari fram með fjarfundaformi.
Skíðasvæðið
Það er virkilega gaman að segja frá því að í dag var skíðalyftan opnuð aftur eftir smá hlé.
Hún Rut Rúnars hjá Skíðadeildinni sagði að það væri nóg af snjó niður við skálann, en vantaði svolítið í efri brekkuna. Færið var þó gott í dag og lyftan var opin frá kl 14:30-17:40. Skálinn er nú lokaður og tveggja metra bil í röðinni, eins og vera skal. Veðrið var kannski ekki uppá það besta til að skíða en samt mættu 13 krakkar og létu sig hafa‘ða! Rut reiknaði með að það yrði opið á morgun, miðvikudag, með fyrirvara um mönnun.
Aðskilnaður starfsfólks og takmörkun heimsókna
Við höfum gengið æ lengra í að skipta starfsfólki stofnana bæjarins upp og takmarka samgang einstakra starfsmanna, auk þess sem nálægðartakmörkunum er fylgt. Þetta gildir um alla vinnustaði bæjarins, eftir því sem við best getum og eðli starfseminnar leyfir. Einhverjir geta unnið fjarvinnu, eins og við á bæjarskrifstofunni, sem höfum skipt okkur upp í tvo aðskilda hópa. Meirihluti okkar starfsfólks vinnur þó þannig störf, að ekki er kostur á að sinna þeim í fjarvinnu. Í síðustu viku var lokað fyrir utanaðkomandi heimsóknir á vinnustöðum eins og á höfn, í áhaldahúsi, slökkvistöð og fleira.
Ég vil þakka viðskiptavinum fyrir að virða þetta og sýna tillitssemi. Gleymum ekki að tilgangurinn með þessum takmörkunum er alltaf sá, að stofnanir bæjarins geti starfað og veitt íbúum þá þjónustu sem hlutverk þeirra gerir ráð fyrir. Auk þess er það skylda okkar allra að leggjast á árarnar til að koma í veg fyrir smit til að halda samferðafólki okkar hraustu, verja störf og verja rekstur fyrirtækja. Það er vegna ykkar, sem við gerum varúðarráðstafanir sem þessar.
Áskorun
Að öllu þessu sögðu vil ég hvetja okkur öll til að taka þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir. Það er í okkar valdi að láta að samkomubann vegna COVID-19 skili árangri sem fyrst og sem best. Með góðri samvinnu mun okkur takast að lágmarka neikvæð áhrif. Setjum í keppnisgírinn og tökum á þessu af ákveðni.
Björg