Kæru íbúar!
Á morgun fara nemendur grunn- og leikskóla aftur í skólana sína, að loknum starfsdegi í dag. Stjórnendur og starfsfólk nýttu daginn til skipulagningar skólastarfsins og nú seinnipartinn fengu foreldrar kynningu á því.
Mér finnst mikilvægt að við stöldrum aðeins við og áttum okkur á því hversu gríðarleg vinna hefur verið lögð í það að endurskipuleggja fyrirkomulag skólastarfs allra leik- og grunnskóla landsins, á aðeins þremur dögum. Tilgangurinn er að sjálfsögðu sá að halda úti skólastarfi og þjónustu skólanna, eins og kostur er miðað við þær takmarkanir sem tóku gildi fyrir um sólarhring.
Aðstæður eru mismunandi hjá skólum. Sumum er ómögulegt að bjóða öllum nemendum að sækja skólann sinn alla daga og hafa því þurft að skipta nemendum niður á daga eða stytta skóladaginn.
Í okkar grunnskóla fá allar bekkjardeildir kennslu alla skóladagana. Sama gildir um Eldhamra. Skólahúsnæðinu, auk íþrótthúss, er skipt upp í 6 litla skóla, hver með sitt afmarkaða starfssvæði. Eldhamrar eru í sinni álmu, en er jafnframt skipt upp. Hópar mega ekki blandast og dreifa þarf nemendum um rýmið. Sérgreinakennsla fellur niður og íþróttir verða útikennsla. Hér má lesa
tilkynningu skólans um fyrirkomulag skólastarfsins. Búast má við að slípa þurfi fyrirkomulagið eitthvað til, þegar fengin er reynsla á fyrstu dagana.
Í leikskólanum er sömuleiðis lagt upp með að halda úti þjónustu fyrir öll börn, alla daga. Þar er börnunum einnig skipt upp í litla hópa og reynt að aðskilja eftir föngum.
Gerðar eru ráðstafanir til að börnin komi ekki öll á sama tíma í skólana sína. Leikskólinn opnar nú kl. 7.30 og nemendur grunnskóla mæta á þremur mismunandi tímum að morgni.
Ræðum við börnin
Rétt eins og það er nauðsynlegt að koma upplýsingum til eldra fólks og útlendinga, þá er brýnt að börn fái réttar og góðar upplýsingar. Auk þess þurfa börn stuðning við að vinna úr upplýsingum og setja þær í rétt samhengi.
Það er alveg ljóst að skólastarf með þessum takmörkunum mun verða mikil viðbrigði fyrir nemendurna. Nauðsynlegt er að við foreldrar ræðum við börnin okkar um þessar breytingar á daglegu lífi og leitum leiða til að draga úr óöryggi sem þeim geta fylgt.
Sama gildir um nemendur framhaldsskólanna, sem skyndilega eru komnir heim, í fjarnám. Þau þurfa stuðning og athygli.
Öll á sama báti
Ég vil þakka starfsfólki skólanna okkar og frístundastarfs fyrir alla þá vinnu sem þau hafa lagt í undirbúning síðustu daga, til að skólarnir okkar geti starfað. Nemendum og foreldrum óska ég góðs gengis í að aðlagast þessum breytingum. Ég vona að við getum í það minnsta nýtt þetta tímabil til að læra sitthvað um okkur sjálf, við sérkennilegar aðstæður.
Í auglýsingu átta samtaka atvinnulífsins er fólk og fyrirtæki hvött til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að samkomubann vegna COVID-19 skili árangri. Með góðri samvinnu muni okkur takast að lágmarka neikvæð áhrif, tryggja heilsu fólks og verja störf og rekstur fyrirtækja. Það er nefnilega svo, að hegðun okkar hefur ekki bara að gera með okkar eigin heilsu og velferð. Okkar hegðun hefur áhrif á störf fjölmargra annarra í samfélaginu, sem aftur hafa svo áhrif á okkar hag. Við erum nefnilega öll á sama báti.
Björg