Kæru íbúar!
Eins og komið hefur fram er heimild í sóttvarnalögum til að gera ýmsar ráðstafanir vegna hættulegra smitsjúkdóma, þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá landinu eða breiðist hér út. Heilbrigðisráðherra nýtti þessar heimildir í gær, 13. mars og gaf út tvenn fyrirmæli. Annars vegar er
auglýsing um takmörkun á skólastarfi sem taka til alls skólastarfs í landinu. Hins vegar er
auglýsing um takmarkanir á samkomum vegna farsótta, sem felur í sér svokallaða nálægðartakmörkun.
Verkefni dagsins hjá Grundarfjarðarbæ, stjórnendum, starfsfólki og bæjarstjórn, voru að skoða vel hvað felst í þessum fyrirmælum sem taka gildi á miðnætti nk. mánudag, undirbúa framkvæmd þeirra hjá okkur, upplýsa og skiptast á skoðunum um það sem nú er mikilvægast.
Ég fundaði með skólastjórum leik- og grunnskóla, leikskólastjóri fundaði með deildarstjórum sínum í dag, skólastjórar grunnskóla sömuleiðis, ég fundaði með mínu fólki í ráðhúsinu og seinnipartinn voru forstöðumenn stofnana á stuttum fundi, sem og bæjarstjórn sem átti mjög góðan fund í lok dags. Í takt við viðfangsefnið, þá fóru flestir þessara funda fram á netinu, þar sem hver situr á sínum stað. Tæknin er þannig sannarlega að hjálpa okkur í þessum ótrúlegu aðstæðum!
Skólarnir okkar eru hér algjört aðalatriði og skólastarfið er jafnframt það sem verður flóknast að útfæra. Eftir samtöl og ákvarðanir dagsins er ég samt vongóð og þakklát mínu góða samstarfsfólki; við erum ákveðin í að gera okkar besta við að láta þetta ganga upp, reyna að halda sem mestri þjónustu, í lengstu lög, miðað við aðstæður.
Ég vil upplýsa aðeins nánar um það helsta sem felst í þeim takmörkunum sem þarf að útfæra:
Grunnskólar mega starfa ef þeir geta tryggt nemendum aukið rými í skólahúsnæðinu. Nemendum þarf að skipta í hópa sem ekki mega blandast, t.d. í frímínútum og matartímum. Ekki mega vera fleiri en 20 nemendur í skólastofu. Bekkirnir hjá okkur eru ekki það stórir að þeir fari yfir þessi mörk, en þó hefur verið samkennt í tilteknum greinum og þar þarf að skipta upp. Íþróttakennslu er óframkvæmanlegt að hafa innanhúss og matartíma þarf að útfæra með alveg nýjum hætti, þar sem börnin mega ekki vera svo mörg saman, á matmálstíma.
Leikskólar mega starfa en þurfa einnig að tryggja að börn séu í sem minnstum hópum og að hóparnir séu aðskildir eins og kostur er. Hið sama gildir um matartíma, ýmsu þarf þar að breyta. Þrífa eða sótthreinsa þarf skólabyggingarnar vandlega eftir hvern dag. Í leikskólanum er það nú þegar gert mörgum sinnum á dag.
Fyrirmælin ná líka til tónlistarskóla, heilsdagsskóla, félagsmiðstöðvar unglinga og íþróttastarfs, eins og á vegum UMFG.
Til viðbótar þessu er svo nálægðartakmörkunin. Á vinnustöðum og í annarri starfsemi skal “eftir því sem unnt er” skipuleggja rými með þeim hætti að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga. Þetta kallar á endurskipulagningu vinnustaða og verklags. Í skólastarfinu horfum við til þess að geta nýtt viðbótarhúsnæði til að breiða úr starfseminni - meira um það síðar.
Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að leiðbeiningum til skóla um útfærslur og leiðir. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði einnig samráðshóp lykilaðila í menntakerfinu til að skipuleggja skólastarf við þessar aðstæður.
Mánudaginn 16. mars nk. verður svo starfsdagur í flestum leik-, grunn- og tónlistarskólum landsins, m.a. hjá okkur. Íþróttir barna og unglinga liggja sömuleiðis niðri þann dag. Þennan dag þarf starfsfólkið að nýta til að skipuleggja starfsemi sína og gera ráðstafanir til næstu vikna.
Eins og fram hefur komið á einnig að loka háskólum og framhaldsskólum til 13. apríl nk. Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga fara því heim og skólinn heldur úti fjarkennslu á næstu vikum, til 12. apríl. Ef einhver skóli er tilbúinn til þess, þá er það FSN. Skólinn hefur frá upphafi sinnt fjarnemum vel og kennsluhættir skólans verið eins og í fjarnámi. Það mun þó auðvitað reyna á kennara og nemendur sem þurfa að byggja upp nýtt verklag og aðferðir við námið, með þessum litla fyrirvara.
Við munum birta frekari upplýsingar og leiðbeiningar um leið og þær liggja fyrir.
Björg