- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Forvarnardagurinn var haldinn í þriðja sinn þann 6. nóvember. Nemendur í 9. bekk um allt land eru þátttakendur í forvarnardeginum. Nemendur í 9. bekk Grunnskóla Grundarfjarðar létu ekki sitt eftir liggja og dagskráin byrjaði á því að Tómas Freyr Kristjánsson, fulltrúi Ungmennafélagsins, kom í heimsókn. Hann afhenti nemendum upplýsingar um net-ratleik og gaf þeim penna. Tómas Freyr spjallaði síðan við nemendur um það sem Ungmennafélagið hefur upp á að bjóða og nemendur spurðu hann spurninga. Þar kom m.a. fram að mikill áhugi er meðal nemenda á að æfa handbolta.
Eftir að Tómas kvaddi þá horfðu nemendur á myndband þar sem forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, og fleiri þjóðþekktir einstaklingar töluðu til þeirra og gáfu góð ráð um það hvernig ætti að forðast áfengis- og vímuefni. Síðan kom að eiginlegri vinnu nemendanna en þeir áttu að ræða og svara spurningum um samveru, íþrótta- og æskulýðsstarf og að hvert ár skipti máli. Nemendur höfðu ákveðnar skoðanir á þessum málefnum og komu fram með marga góða punkta. Niðurstöður þessarar verkefnavinnu eru svo sendar til skipuleggjenda forvarnardagsins sem vinna síðan áfram með þær.
Dagurinn endaði síðan á því að nemendur unnu veggspjöld úr umræðum dagsins. Nemendur 9. bekkjar voru ánægðir með daginn og það er engin spurning að forvarnardagurinn er gott framtak og skilar góðum árangri.