- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Grundarfjarðarbær, ásamt öðrum sveitarfélögum á Snæfellsnesi, hafa verið í fararbroddi í umhverfismálum á undanförnum árum. Það skiptir miklu máli, því það eru mikil verðmæti fólgin í góðri umgengni og meðferð úrgangs er meðal mikilvægustu umhverfismála.
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi voru þau fyrstu í Evrópu til að fá umhverfisvottun og tóku forystu meðal sveitarfélaga á Íslandi á leiðinni að sjálfbærri þróun.
Auðlindir heimsins eru ekki óþrjótandi og í sorpi eru fólgin verðmæti sem mikilvægt er að nýta. Ávinningur af flokkun heimilissorps er ótvíræður, m.a. sá að nýta dýrmætan urðunarstað lengur og endurvinnsla er ódýrari en frumvinnsla. Kostnaður við urðun sorps fer hækkandi og því er mikilvægt að draga úr urðun svo sem kostur er.
Flokkað sorp fer til endurvinnslu, lífrænt sorp fer í moltugerð og almennt sorp fer til urðunar. Markmiðið er að draga úr urðun lífræns sorps í samræmi við reglugerð um meðhöndlun úrgangs og alþjóðlegar viðmiðanir.
Umhverfisvernd og ábyrg umgengni um náttúruna varðar okkur öll. Neysluþjóðfélag nútímans kallar á markvissari lausnir í umhverfismálum en áður. Flokkun sorps er ekki flókin og mikilvægt er að víðtæk þátttaka verði meðal íbúa svo að vel megi til takast, okkur öllum til hagsbóta í nútíð og framtíð.