Fimmtudagskvöldið 26. júní nk. kl. 19 verður fyrsta fjöruferðin af fjórum í sumar á vegum þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og sjávarrannsóknarsetursins Varar. Farið verður í fjöruna við Gufuskálavör með mánaðar millibili og fegurð hennar og fjölbreytileiki kannaður og fylgst með breytingum á lífríkinu með ýmsum athugunum. Mismunandi áherslur verða í hverri ferð og mun Erla Björk Örnólfsdóttir sjávarlíffræðingur leiða ferðirnar. Hver ferð stendur í um 1-2 klst. og er fólki bent á að mæta í stígvélum og klæða sig eftir veðri. Ekki er nauðsynlegt að mæta í allar ferðirnar en örugglega skemmtilegast!

Laugardaginn 28. júní hefst svo vikuleg dagskrá þjóðgarðsins sem stendur til 14. ágúst. Þá verður barnarstund við tjaldsvæðið á Anrarstapa á laugardögum frá 11-12, gönguferð frá Arnarstapa að Hellnum á laugardögum, ganga frá Búðum að Frambúðum á sunnudögum, á þriðjudögum ganga frá Svalþúfu að Lóndröngum og leiðin Djúpalónssandur-Dritvík verður gengin á fimmtudögum. Allar göngurnar byrja kl. 14 og stand í um 1-2 klst. Landverðir þjóðgarðsins sjá um leiðsögn og er frítt í allar göngur og barnastund eins og í aðra viðburði á vegum þjóðgarðsins. Sumardagskrá þjóðgarðsins í heild sinni má finna á vef þjóðgarðsins á síðunni www.ust.is .

 

Nánari upplýsingar veitir Guðrún Lára Pálmadóttir, sérfræðingur
S: 436 6860/822 4009