Á fundi sínum þann 15. maí sl. samþykkti bæjarstjórn  Fjölskyldustefnu Grundfirðinga.  

Í fjölskyldustefnu eru sett markmið um að styðja enn betur við fjölskyldur í sveitarfélaginu og þar eru einnig ákveðnar leiðir að þeim markmiðum, verkefni sem eru tímasett og falin ákveðnum ábyrgðaraðilum til framkvæmdar.

Fjölskyldustefna er þannig verkfæri til að hámarka lífsgæði og árangur í samfélaginu, forgangsraða og styrkja enn frekar ímynd bæjarins. Sveitarfélag sem leggur áherslu á gott og fjölskylduvænt samfélag stendur auk þess betur að vígi í samkeppni við önnur sveitarfélög um fólk og fyrirtæki.

 

Það er Grundarfjarðarbær sem stendur að gerð fjölskyldustefnunnar. Heiti hennar er fjölskyldustefna Grundfirðinga en ekki Grundarfjarðarbæjar og á að endurspegla að það er okkar allra, íbúanna, að stuðla að því að gera gott samfélag enn betra. Nokkrir aðilar aðrir en bærinn ,,eiga” líka verkefni í stefnunni og eru þátttakendur í framkvæmd hennar. Vonir standa til að fleiri geti bæst í hópinn.

 

Öllum íbúum var gefinn kostur á að taka þátt í vinnu við mótun stefnunnar. Efniviður var fenginn af íbúaþingi sem haldið var í mars 2005, en þar var annað meginþemað undirbúningur fjölskyldustefnu. Í framhaldi af því var skipaður stýrihópur sem tók til starfa í ágúst. Ráðgjafarfyrirtækið Alta starfaði fyrir stýrihópinn. Efnt var til almennra funda um viðfangsefnið og skipaðir voru vinnuhópar sem unnu með málefni mismunandi aldurshópa. Vinnuhóparnir skiluðu umfangsmiklum efnivið og hugmyndum til stýrihóps á fundi í lok febrúar. Stýrihópur skilaði síðan tillögu til bæjarstjórnar sem samþykkti stefnuna eins og fyrr segir á fundi sl. mánudag.

 

Einstakir þættir fjölskyldustefnunnar verða endurskoðaðir í ljósi nýrra aðstæðna og eftir því sem framkvæmd stefnunnar miðar.  Heildarendurskoðun fjölskyldustefnunnar mun fara fram árið 2010.“

 

Hægt er að lesa stefnuna í heild sinni hér á vefnum með því að smella á: Fjölskyldustefna Grundfirðinga

 

Fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar vill undirrituð koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem unnu að gerð fjölskyldustefnu Grundfirðinga og þeirra sem lögðu sitt af mörkum í formi hugmynda og ábendinga.

 

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri