Fjölbrautaskóla Snæfellinga var í gær færð myndarleg gjöf frá fjölskyldu Halldórs heitins Finnssonar frá Spjör í Eyrarsveit. Fjölskyldan minntist þess að þann 2. maí voru 80 ár liðin frá fæðingu Halldórs, sem lést í apríl 2001.

 

Halldór var um árabil hreppsnefndarmaður og oddviti í Eyrarsveit, hreppstjóri, sparisjóðsstjóri og síðast skrifstofustjóri í útibúi Búnaðarbankans.

 

Af þessu tilefni færðu eftirlifandi eiginkona Halldórs, Pálína Gísladóttir, og börn þeirra hjóna, Fjölbrautaskóla Snæfellinga myndarlega gjöf, fjárupphæð til smíða á ræðupúlti fyrir hinn nýja fjölbrautaskóla.

Það var Kjartan Páll Einarsson, formaður skólanefndar, sem tók við gjöfinni fyrir hönd skólans við athöfn að Spjör í gær.