Frá lokadegi vinnuskólans 8. júlí 2022
Frá lokadegi vinnuskólans 8. júlí 2022

Nú er tímabili vinnuskólans lokið þetta árið, eftir fimm vikna starfsemi. Alls voru um 14-15 krakkar sem tóku þátt í sumar, úr 7. til 9. bekk, og tveir starfsmenn unnu við aðstoð á sumarnámskeiðum, þrjár vikur í júní.  Valdís Ásgeirsdóttir var umsjónarmaður vinnuskólans í sumar. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og við þökkum þeim kærlega fyrir gott sumar. Valdísi þökkum við sömuleiðis fyrir einstaklega góða umsjón og ánægjulegt samstarf. 

Grunnur vinnuskólans

Lagðar voru línur um starfið snemma í vor. Starf vinnuskólans snýst nefnilega ekki bara um að „reita arfa“ heldur er heilmikið annað sem tækifæri er til að koma inná í starfi með ungmennum sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Eftirfarandi voru áhersluþættir bæjarins fyrir starfið:

  • Vinnuskólinn sem fyrsti vinnustaður ungmenna; vinnusiðferði og sjálfstæði, verkefni við hæfi
  • Umhverfisvitund og umhverfismál; almennt og hjá Grundarfjarðarbæ
  • Samfélagið okkar; vinnustaðaheimsókn, sjávarpláss, félagsstarf, íþróttir o.fl.
  • Vinnuvernd; öryggisfræðsla og þjálfun í víðum skilningi
  • Vinnumarkaður; að vera launþegi og starfsmaður, skyldur og réttindi

Dagskrá vinnuskólans og viðfangsefni byggðu öll á þessum fimm þáttum. 

Ramminn um starfið

Í upphafi var farið yfir það hvernig við högum vinnunni og hvernig starfsmaður hver og einn vill vera. Við ræddum samskipti, mætingu, öryggismál og umgengni, t.d. það af hverju við erum í öryggisvestum, hvernig við umgöngumst áhöldin okkar og göngum frá þeim þegar við hættum að vinna, ekki bara til að hafa snyrtilegt, heldur líka til að bæta öryggi og vellíðan okkar. Þetta og margt fleira eru atriði sem alltaf er síðan verið að fara yfir, út í gegnum starfstímann, ekki síst eftir námskeið um vinnuvernd.

Verkefnin eru blanda af hefðbundnum verkefnum og tilfallandi. Reynt er að ala á sjálfstæði nemendanna, kenna þeim að beita verkfærum sjálf (það sem er við hæfi), kenna þeim vinnuaðferðir og líkamsbeitingu. Líka er reynt að fá þau til að hafa skoðun á umhverfi sínu og verkefnum; hvað þau langar að gera til að bæta umhverfið okkar og af hverju þessi verkefni skipta máli. Við tókum mikið af „fyrir og eftir“-myndum til að sjá muninn.

Helstu viðfangsefni í fimm vikur

Vika 1

Fyrsta verk krakkanna var að gera fínt niðrá höfn fyrir sjómannadaginn. Þau tíndu heil ósköp af rusli á hafnarsvæðinu, aðallega í grjótgarðinum sem er ágætis gildra fyrir rusl sem fýkur yfir veturinn. Afraksturinn var á að giska 30 ruslapokar og auk þess hreinsuðu þau gras og arfa úr steinabeði fyrir framan hafnarvogina. 

Sæbólsbeðið var tekið rækilega í gegn ásamt því að raka steina af grasblettinum við pylsuvagninn eftir snjómokstur vetrarins.

Vinnuvikan endaði á því að nokkrir nemendur skelltu sér upp í sundlaug og tóku þátt í sundlaugarfjöri í tilefni af sjómannadeginum.

- Smellið á myndirnar til að stækka þær og lesa myndatexta.

Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022

Vika 2

Í annarri vinnuviku var veðrið ekki alveg eins gott, en slapp allt saman til. Beðin við heilsugæsluna voru hreinsuð ásamt hellum á göngustíg og í grjóti. 

Grundarfjarðarbær leggur ríka áherslu á vinnuvernd í starfi með ungu fólki. Gísli Níls Einarsson forvarnafulltrúi VÍS kom til okkar og var með erindi um vinnuvernd. Þetta var mjög góður fyrirlestur, krakkarnir tóku virkan þátt í umræðum, komu með spurningar og voru ófeimin að svara spurningum sem Gísli beindi að þeim.  

Blóma- og runnabeð við samkomuhúsið voru hreinsuð auk þess sem byrjað var á því mikla verki að hreinsa beðin í Paimpolgarðinum.

Föstudagurinn var ansi mikill rigningadagur og var tækifærið nýtt eftir hádegi til að fræðast um brunavarnir. Í slökkvistöðinni tóku þeir Valgeir slökkviliðsstjóri og Óskar varaslökkviliðsstjóri á móti krökkunum og fræddu þau um eldvarnir og starfsemi slökkviliðsins.

Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022 Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022

Vika 3

Í viku þrjú var veðrið allskonar og þar af leiðandi verkefnin líka. Haldið var áfram að hreinsa beð í Paimpolgarði. Þetta var heljarinnar vinna eins og sést á myndunum. Hreinsað var í kringum bæjarskrifstofu, Sögumiðstöðina og meðfram gangstéttum víðs vegar um bæinn.

Eftir hádegi á þriðjudeginum var tækifærið nýtt til að flýja rigninguna og halda áfram með vinnuverndarfræðsluna. Í fyrra tók Grundarfjarðarbær þátt með VÍS og Vinnuverndarskólanum í Keili í að þróa námsefni á netinu fyrir nemendur í vinnuskólum og fyrir sumarstarfsfólk. Hér má sjá frétt um það og hér má sjá erindi á forvarnaráðstefnu VÍS í mars 2022. Krakkarnir nýttu sér að taka þetta netnámskeið, sem er mjög flott upp sett og farið helstu þætti vinnuverndar, eins og hún er skilgreind í vinnulöggjöfinni. Meðal annars er farið yfir slysavarnir, likamsbeitingu, hættuleg efni, samskipti og að líða vel í vinnunni og fleira. Eftir hvern kafla er létt „próf“ til að innsigla boðskap námsefnisins. Það eru krossaspurningar sem þarf að svara til að geta haldið áfram í næsta kafla. Hópurinn svaraði spurningunum sameiginlega. Allt efnið er sett fram á skemmtilegan hátt og Napo er skemmtilegur „vinnuverndargaur“ sem kennir okkur ýmislegt.

Guðrún Magnea verkefnisstjóri fyrir Umhverfisvottun Snæfellsness kom einnig til okkar og var með fræðslu um umhverfismál. Þar var m.a. farið yfir „hraðtísku“ í nútímanum og hvaða áhrif hún hefur á umhverfið, talað um matarsóun, úrgangsmál, búsvæðaeyðingu og fleira. Mjög fróðlegur fyrirlestur.

Vinnuvikunni var síðan lokið með starfsdegi á golfvellinum, þar var farið í grjóttínslu, en í hádeginu var boðið uppá grillaðar pylsur og síðan var farið í golfleiki á æfingasvæðinu.

Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  

Vika 4

Í fjórðu viku fóru krakkarnir í vinnustaðaheimsókn niðrá höfn þar sem þau fengu að fylgjast með löndun úr togara. Grundarfjörður er sjávarpláss og því er fróðlegt að sjá hvernig vinnan fer fram á höfninni. Hafsteinn, Steinar og Patrycja starfsmenn Grundarfjarðarhafnar sýndu krökkunum hvernig vigtun á sjávarafla fer fram og farið var yfir þau fjölbreyttu störf sem hafnarverðir gegna. Farið var yfir hvað gerist við löndun og hvaða ákvarðanir liggja að baki því hvert fiskurinn er sendur og eftir hvaða leiðum. Það var virkilega vel tekið á móti krökkunum á höfninni og öllum spurningum svarað greiðlega.

Göngustígar inn í Þríhyrning voru hreinsaðir ásamt því að hreinsa meðfram gangstéttum og beð við RARIK-skúrinn við vestanverða Grundargötu.

Lausu kantsteinarnir við sundlaug og grunnskóla voru málaðir. Tínt var rusl á iðnaðarsvæðinu og þaðan meðfram strandlengjunni og inní bæ. Beðin í Paimpolgarðinum voru kláruð og góðu verki fagnað. 

Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  

  

Vika 5

Í síðustu vikunni voru ýmis og fjölbreytt verkefni unnin. Krakkarnir hreinsuðu gúmmímotturnar á leikskólalóð, unnu að hreinsun í sundlaugargarði og hjálpuðu sláttugenginu að raka. Þau fúavörðu fjárréttina inná Hrafnkelsstaðabotni í Kolgrafafirði og einnig var borin fúavörn á bátinn og borðið á miðsvæði bæjarins ("Víkingasvæðið"). Einnig voru þau fengin til aðstoðar við að taka til og raða inn í boltageymslu í íþróttahúsi.  

Þau fengu fræðslu um „vinnumarkaðinn“, að „lesa“ launaseðilinn sinn, um skatta og gjöld og fleira, með skemmtilega uppsettum myndböndum - "Skóli lífsins" - sem ætluð eru ungu fólki. Og næst síðasta daginn hittu krakkarnir Björgu bæjarstjóra í Ráðhúsinu og ræddu við hana um verkefni vinnuskólans, stjórnun sveitarfélags, skatta og fleira.

Á lokadeginum, föstudaginn 8. júlí sl., gerðu krakkarnir ásamt umsjónarmanni sér glaðan dag. Óli íþróttafulltrúi og Valdís umsjónarmaður sáu til þess að öll fengju grillaðar pylsur í hádeginu og toppurinn á fimm vikna starfi var síðan kajakferð út á fjörðinn í algerlega dásamlegu veðri.

Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  Vinnuskólinn 2022  

Við vonum að öll hafi farið glöð heim og að vinnuskólasumarið hafi verið bæði fróðlegt og ánægjulegt. Við hlökkum til næsta sumars!

 

- Texti og myndir: Valdís/Björg/Óli