- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í nóvember sl. hélt Rannsóknarmiðstöð Íslands (RANNÍS) kynningu á niðurstöðum verkefna í markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál, undir yfirskriftinni:
Markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál 1999 – 2004
- Uppgjör -
Málþing og kynning á niðurstöðum verkefna og veggspjaldasýning
Hótel Loftleiðum 11. nóvember 2004
Fjarnáminu í Grundarfirði var boðið að vera með kynningu, en fjarnámsverkefnið hlaut á sínum tíma fjárstyrk úr markáætlun RANNÍS sem upplýsingatækniverkefni. Fjarnámið var hugsað fyrir nemendur á framhaldsskólastigi, sem stunduðu sitt nám í gegnum fjarnám við VMA og höfðu aðstöðu og stuðning í fjarnámsveri í Grundarfirði. Styrkurinn var mikilvægur stuðningur við þróun á kennsluháttum og aðferðafræði verkefnisins og til að rannsaka áhrif þess.
Fjarnámsverkefnið var einstakt fyrir þær sakir, að aldrei áður hafði hópur nemenda átt þess kost að stunda framhaldsskólanám í heimabyggð, í gegnum fjarnám, með svo markvissum hætti og með þessu lagi.
Verkefnið var samstarfsverkefni sveitarfélagsins, menntamálaráðuneytisins og Verkmenntaskólans á Akureyri og í upphafi var Fjölbrautaskóli Vesturlands einnig þátttakandi að hluta.
Óhætt er að segja að fjarnámið hafi haft veruleg áhrif á námsmöguleika Grundfirðinga og opnað nýjar víddir. Með framkvæmd verkefnisins varð ennfremur ljóst að hægt væri að fara aðrar og nýjar leiðir í námi á Íslandi.
Um 70 nemendur („nemendaígildi“) stunduðu fjarnámið á þeim 5 skólaárum sem það var við lýði, þó nokkrir voru lengur en 1 ár. Auk þess hafði verkefnið þau áhrif að nokkur fjöldi fullorðinna stundaði nám í einum eða fleiri fjarnámsáföngum við VMA.
Fjarnámsverkefnið var ekki kynnt sérstaklega með fyrirlestri eða erindi á málþinginu, en var kynnt með veglegu veggspjaldi þar sem saga fjarnámsins var rakin. Sem kunnugt er hefur fjarnámið nú runnið sitt skeið, enda hefur Fjölbrautaskóli Snæfellinga tekið til starfa.