- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fjárhagsáætlun ársins 2012 var samþykkt samhljóða við síðari umræðu í bæjarstjórn 15. desember sl. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á góða samvinnu beggja lista í bæjarstjórn við gerð fjárhagsáætlunar og hefur það fyrirkomulag gengið mjög vel.
Þess má geta að við fyrri umræðu í bæjarstjórn lagði oddviti minnihlutans fram fjárhagsáætlun ársins, en hann stýrði þeim fundi sem varaforseti bæjarstjórnar. Ekki er vitað til þess að slíkt hafi gerst áður.
Hér að neðan er rekstraryfirlit og helstu tölur ásamt greingargerð bæjarstjóra við fjárhagsáætlun.
Helstu tölur:
Útsvar |
315.000 |
Fasteignaskattur |
62.395 |
Jöfnunarsjóður |
95.793 |
Lóðarleiga |
16.980 |
Aðrar tekjur |
183.507 |
Heildargjöld án fjármagnsliða |
602.027 |
Tekjuafgangur fyrir fjármagnsliði |
71.648 |
Niðurstaða fjármagnsliða |
-61.437 |
Rekstrarafgangur A hluta bæjarsjóðs |
-2.175 |
Rekstarafgangur A og B hluta samtals |
10.211 |
Efnahagur: | |
Fastafjármunir |
1.524.995 |
Veltufjármunir |
147.576 |
Eignir samtals |
1.662.571 |
Eigið fé |
177.327 |
Skuldbindingar |
107.193 |
Langtímaskuldir |
1.220.518 |
Skammtímaskuldir |
167.533 |
Skuldir og eigið fé |
1.672.571 |
Greinargerð með fjárhagsáætlun 2012:
Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2012 sýnir að talsverðum árangri hefur verið náð við að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Eftir hrunið 2008 þrengdi alvarlega að bæjarsjóði m.a. vegna umbyltingar á gengisbundnum lánum og hefur síðan þá verið unnið að því að bæta rekstrarstöðuna. Árið 2012 má búast við nokkrum bata og hefur þegar verið gert ráð fyrir aukum fjármunum til málaflokka. Batinn er hins vegar háður því að tekjuáætlun standist en mikil óvissa er bæði í útsvari og framlögum Jöfnunarsjóðs.
Stöðugur niðurskurður í rekstri undanfarin ár hefur þrengt svo að rekstrinum, að enn frekari niðurskurður var útilokaður án verulegrar uppstokkunar á þeim verkefnum sem sveitarfélagið hefur sinnt og á að sinna.
Umskipti urðu á skuldastöðu sveitarfélagsins við hrunið og var skuldahlutfall langt yfir viðmiðunarmörkum og yfir þeim mörkum sem sveitarfélagið gæti staðið undir. Í árslok 2012 er áætlað að heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins verði um 1,5 milljarður kr. Skuldir hafa lækkað nokkuð og er það einkum vegna leiðréttinga árið 2011 á lánum tengndum erlendum gjaldmiðlum að fjárhæð um 194 millj. kr. Skuldir sveitarfélagsins eru við Lánasjóð sveitarfélaga, Íbúðalánasjóð og Arion banka.
Í samtölu skulda og skuldbindinga eru um 150 millj. kr. vegna skuldbindinga Jeratúns ehf. sem á og rekur húsnæði Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Á móti þeirri skuldbindingu er leigusamningur við Mennta- og menningarmálaráðuneytið til jafn langs tíma og endurgreiðslutími lána félagsins er. Þá er jafnframt 40 millj. kr. skuldbinding vegna samnings við Orkuveitu Reykjavíkur um hitaveituvæðingu þéttbýlis í Grundarfirði. Að frádregnum þessum skuldbindingum verða skuldir alls um 1,3 milljarður kr. eða um 194% af áætluðum heildartekjum ársins 2012. Skuldahlutfallið hefur því lækkað umtalsvert á liðnum árum.
Fjármál sveitarfélagsins hafa verið undir vökulum augum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og hafa nokkur samskipti verið við nefndina á árinu vegna þessa. Það er umhugsunarvert að til sé eftirlitsnefnd, skipuð af ríkinu, sem fylgist vel með því að sveitarfélagið hafi getu til að standa við skuldbindingar gagnvart lánardrottnnum, óháð þeim forsendubresti sem varð í samfélaginu haustið 2008. Engin nefnd af hálfu ríkisins spyr hvort sveitarfélagið hafi getu til að uppfylla skyldur gagnvart íbúum sínum.
Það er stefna bæjarstjórnar Grundarfjarðar að skyldur gagnvart íbúum hafi forgang umfram aðrar skyldur. Á máli bankamanna og lögfræðinga er þetta væntanlega orðað þannig að íbúar Grundarfjarðar eru á fyrsta veðrétti og lánardrottnar á öðrum veðrétti.
Undanfarin ár hefur íbúum Grundarfjarðar fækkað eins og víðast á landsbyggðinni og hafa útsvarstekjur ekki haldið í við hækkun verðlags. Bráðabirgðatölur í desember 2011 gera ráð fyrir að íbúafjöldi verði óbreyttur frá fyrra ári, eða rétt liðlega 900 íbúar. Vegna lækkandi tekna hefur þurft að skera niður í starfsemi sveitarfélagsins og hafa framkvæmdir nær engar verið. Lengra verður ekki gengið í niðurskurði og verða framkvæmdir nokkru meiri árið 2012 en 2011 þó því fari fjarri að nægilegt fjármagn sé til viðunandi fjárfestinga til að halda í horfi.
Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir óbreyttu útsvari, 14,48%. Gert er ráð fyrir að fasteignagjöld einstaklinga hækki að jafnaði um 5,5% en fyrirtækja um 13,1%. Fasteignamat hækkar um 20,4% um áramótin. Þyngst vegur hækkun á íbúðarhúsnæði, að meðaltali um 28,9%. Lóðarmat hækkar um 4,1% að jafnaði. Álagningarprósenta fasteignaskatts verður óbreytt en lóðarleiga lækkuð á íbúðarhúsnæði úr 0,85% í 0,7% en hækkar á atvinnuhúsnæði úr 2,5% í 4,0%. Holræsagjald íbúðarhúsnæðis lækkar úr 0,22% í 0,1%.
Benda má á að hækkun fasteignamats kom okkur talsvert á óvart og þegar kafað var ofan í það kom í ljós að um skuldsettar yfirtökur banka á yfirveðsettum húsum var að ræða. Gera má ráð fyrir því að fasteignamat lækki þegar raunverulegar sölur mynda fasteignamatið fremur en yfirtökur. Það skýrir tímabundnar lækkanir hjá okkur á lóðarleigu, þá eigum við til í sarpi fyrir væntanlegar lækkanir fasteignamats.
Gert er ráð fyrir að heildartekjur sveitarfélagsins verði liðlega 673 millj. kr. sem er um 11 millj. kr. hækkun frá áætluðum tekjum ársins 2011.
Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa farið lækkandi undanfarin ár og er enn gert ráð fyrir lækkun. árið 2012 er áætlað framlag um 96 millj. kr. Framlög Jöfnunarsjóðs skipta sköpum í rekstri sveitarfélagsins og má það ekki við frekari skerðingu á framlögum. Hjá Jöfnunarsjóði er unnið að tillögum um breytingar á úthlutunarreglum og eru væntingar til þess að þær breytingar verði jákvæðar fyrir Grundarfjarðarbæ.
Stefnt er að því að rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs og stofnana verði jákvæð um 10 millj. kr. Langtímaskuldir munu ekki breytast á árinu og verða um 1,2 milljarðar kr. Lögð verður áhersla á að greiða niður skammtímaskuldir en langtímaskuldir verða endurfjármagnaðar.
Ekki er gert ráð fyrir niðurskurði í rekstri en áfram verður gætt hagræðingar í innkaupum.
Gjaldskrár hækka almennt um 5% en á því eru nokkrar undantekningar.
Leikskólagjöld munu hækka um 2% og jafnframt mun afsláttur til 2. barns hækka úr 35% í 50%. Afsláttur vegna þriðja barns verður áfram 100%. Áfram verða 12 mánaða börn tekin inn á leikskólann en gert er ráð fyrir að 4 tíma afsláttur vegna elsta árgangsins falli niður frá næsta hausti.
Dvalargjald í heilsdagsskóla mun ekki hækka en afsláttur vegna 2. barns mun hækka úr 35% í 50%.
Leyfisgjald vegna hunda mun hækka um 9% og vegna katta um 33%. Ástæða er sú að gjaldtaka stendur ekki undir áföllnum kostnaði við eftirlit og umsjón. Gjald er í fullu samræmi við það sem víðast tíðkast.
Tekjutenging vegna afsláttar fasteignaskatts elli- og örorkulífeyrisþega hækkar um 5,5%.
Áætlað er að veltufé frá rekstri verði 13,9% í árslok 2012.
Framlegð A hluta er áætluð 12,3% og af samstæðu 17,6% sem er sambærilegt og á árinu 2011.
Veltufjárhlutfall er áætlað 0,88 og eiginfjárhlutfall 11%.
Gert er ráð fyrir að laun nemi tæplega 45% af tekjum og annar rekstrarkostnaður 38%.
Gengið er út frá 4% hækkun verðbólgu á árinu en ekki er gert ráð fyrir gengisbreytingum enda eru gengisbundin lán sveitarfélagsins óveruleg.
Ekki er gert ráð fyrir að launakostnaður hækki umfram kjarasamninga en launakostnaður hefur lækkað talsvert frá árinu 2010.
Unnið hefur verið að gerð þessarar fjárhagsáætlunar undanfarnar vikur og hafa forstöðumenn stofnana komið að þeirri vinnu ásamt bæjarfulltrúum og starfsmönnum á bæjarskrifstofunni. Þrátt fyrir góðan vilja og góð excel líkön er nauðsynlegt að hafa í huga að þetta er ekki spá um niðurstöðu ársins 2012, heldur markmið sem unnið skal að allt árið.
Fjárhagsáætlunin er lögð fram sameiginlega af allri bæjarstjórn og er slík samstaða afskaplega mikilvæg fyrir Grundfirðinga, en undanfarin ár hefur verið góð samvinna í bæjarstjórn við gerð fjárhagsáætlunar.
Grundarfirði, 15. desember 2011.
Björn Steinar Pálmason, bæjarstjóri.