|
Knattspyrnumaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson var kjörinn íþróttamaður Grundarfjarðar árið 2016 |
Fimm tilnefningar bárust til kjörs á íþróttamanni Grundarfjarðar fyrir árið 2017 og verða úrslitin gerð kunn á aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei sunnudaginn 3. desember. Tilnefningar bárust frá blakdeild UMFG, körfuknattleiksdeild UMFG, knattspyrnudeild UMFG, Golfklúbbnum Vestarr og Skotfélagi Snæfellsness og eru eftirfarandi tilnefnd:
Svana Björk Steinarsdóttir - blakdeild UMFG
- Svana Björk er prúður og agaður leikmaður. Hún er fyrirmynd bæði innan vallar sem utan.
- Hún er lykilleikmaður hjá meistaraflokki UMFG sem keppir á Íslandsmótinu í blaki.
- Svana Björk var valin í verkefni á vegum unglingalandsliðsins U-19 og kom nýlega heim frá Kettering í Englandi þar sem U-19 kvk keppti á Norðurlandamóti og lenti í 5. sæti.
Rúnar Þór Ragnarsson - körfuknattleiksdeild UMFG
- Þrátt fyrir að Rúnar Þór sé tiltölulega nýbyrjaður að spila körfubolta hefur hann bætt við sig mjög góðum hraða.
- Á síðasta tímabili spilaði hann bæði með liði Snæfells í úrvalsdeild og með liði Grundarfjarðar í 3. deild á venslasamningi.
- Í úrvalsdeildinni spilaði hann alla leiki og var lykilmaður í liði Grundarfjarðar sem komst í undanúrslit í 3. deild.
- Á þessu tímabili er hann eingöngu að spila með Snæfelli í 1. deild þar sem hann hefur með miklum aukaæfingum spilað sig inn í byrjunarliðið.
- Við í körfuknattleiksdeildinni teljum Rúnar vera vel að þeim heiðri kominn að hrifsa verðlaunin úr höndum bróður sín
Þorsteinn Már Ragnarsson - knattspyrnudeild UMFG
- Þorsteinn var lykilmaður í liði Víkings Ólafsvík í Pepsideild karla í knattspyrnu í sumar.
- Liðið háði erfiða baráttu fyrir tilverurétti sínum í deildinni en svo fór að lokum að þeir töpuðu þeirri baráttu og féllu.
- Þorsteinn spilaði 21 leik í sumar og skoraði í þeim þrjú mörk. Einnig bar hann fyrirliðabandið í nokkrum af þessum leikjum.
- Þorsteinn er mikil og góð fyrirmynd fyrir unga knattspyrnuiðkendur enda hæglátur og dagfarsprúður drengur.
- Eftir tímabilið voru mörg lið á eftir Þorsteini og í haust samdi hann við Pepsideildarlið Stjörnunnar í Garðabæ.
Helga Ingibjörg Reynisdóttir - Golfklúbburinn Vestarr
- Helga Ingibjörg náði þeim árangri í sumar að verða Vesturlandsmeistari kvenna.
- Hún lækkaði forgjöf sína um heila fimm en hún fór úr 34,2 í byrjun sumars niður í 29,2 í lok sumars. Glæsilegur árangur.
- Helga varð punktameistari Vestarr á meistaramóti klúbbsins í sumar.
- Hún er virkur félagi í Vestarrr og formaður skálanefndar ásamt því að vera í mótanefnd.
- Helga er góður félagi og vel að titlinum komin.
Guðmundur Andri Kjartansson - Skotfélag Snæfellsness
- Guðmundur Andri er tilnefndur sem íþróttamaður ársins af Skotfélagi Snæfellsness.
- Guðmundur Andri er mjög virkur skotmaður, stundar reglulegar skotæfingar og hefur verið að ná mjög góðum árangri.
- Hann hefur tekið þátt í öllum mótum sem haldin voru af félaginu á árinu, að einu móti undanskildu, og vann til verðlauna á þeim öllum.
- Guðmundur Andri situr í stjórn Skotfélags Snæfellsness og gegnir þar starfi ritara. Hann er mjög virkur í starfi félagsins og hefur komið að skipulagningu og tekið þátt í flestum þeim viðburðum sem skipulagðir hafa verið af félaginu á árinu, hvort sem það eru mót, skotvopnasýning, námskeið eða annað. Þá hefur hann lagt ómælda sjálfboðavinnu í uppbyggingu á æfingasvæði félagsins.
- Guðmundur Andri hefur vaxið mikið sem skotíþróttamaður undanfarin ár og er öðrum yngri skotmönnum fyrirmynd hvað það varðar.