- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Hér koma helstu fréttapunktar um starfsemi stofnana og nefnda bæjarins í febrúar 2024, verkefni og helstu viðburði:
Orkuskiptaverkefnið vegna íþróttamannvirkja og grunnskóla heldur áfram. Í lagnavinnu hefur reyndað lítið gerst vegna tíðarfars, en GG lagnir ehf. sjá um að leggja lagnir úr borholum, gegnum lagnakistu og inní íþróttahús. RARIK undirbýr flutning á litlu húsi fyrir nýja spennistöð sem sett verður upp sunnan við íþróttahúsið. Verið er að undirbúa framkvæmdir í kjallara íþróttahúss. Búið er að festa kaup á fimm varmadælum frá Fríorku ehf. á Selfossi og stefnt er að því að skipt verði um orkugjafa í maí-júní nk. Gera má ráð fyrir því að loka þurfi sundlaug/íþróttahúsi í smátíma meðan á því verki stendur. Á sama tíma er ætlunin að skipta um glugga og hurðir í búningsklefum sundlaugar/íþróttahúss.
Sorpútboð - Þrjú tilboð bárust í útboði sorpmála fyrir Grundarfjarðarbæ og Snæfellsbæ sem opnað var 24. janúar sl. Fundað var með bjóðendum um miðjan febrúar. Eftir yfirferð og úrvinnslu var öllum tilboðum hafnað, en nýtt hraðútboð var sett af stað, þar sem sama útboð er endurtekið, með örlítið breyttum forsendum og styttri útboðsfresti en í fyrra skiptið. Sjá fundargerð bæjarstjórnar 16. febrúar 2024.
Hér má finna auglýsingu um nýtt hraðútboð sorpmála, en tilboðsfrestur er til kl. 12:00 þann 15. mars nk.
Áhaldahús og eignaumsjón hafa sinnt ýmsum viðhaldsverkefnum í stofnunum bæjarins og unnið að undirbúningi fyrir framkvæmdir ársins. Snjómokstur og hálkuvarnir hafa verið fyrirferðarmiklar í febrúarmánuði. Unnið er að endurbótum á tengigangi frá íbúðum eldri borgara að Hrannarstíg 18 yfir á Fellaskjól, en beðið hefur verið eftir þakpappaverktaka til að ljúka smávegis frágangi, svo klára megi innanhússfráganginn sem á því hangir. Einnig er verið að taka í gegn eina íbúð að Hrannarstíg 18, vegna eigendaskipta.
Leiksvæði bæjarins - unnið er að undirbúningi og að pöntun leiktækja fyrir sumarið.
Umhverfisvottun Earth Check - Árleg úttekt fór fram hjá sveitarfélögum á Snæfellsnesi 7. og 8. febrúar. Í Grundarfirði var geymslusvæði bæjarins við Hjallatún, söfnunarstöð sorps (gámastöðin) við Ártún og Sundlaug Grundarfjarðar. Fundur um bráðabirgðaniðurstöður úttektar var haldinn síðdegis 8. febrúar. Í pósti verkefnisstjóra sagði að úttektin hafi gengið mjög vel. Gaman er að segja frá því að Sundlaugin fékk stórt hrós hjá úttektaraðilanum fyrir það hve mikið hefði gerst og verið fært til betri vegar, hvað varðar umhverfis- og öryggismál. Úttektir sem þessar hafa hjálpað okkar stofnunum og starfsemi mikið, þar sem við viljum hafa umhverfis- og öryggismál í lagi, með hag notenda, íbúa, starfsfólks og gesta í huga.
Leikskólinn - Dagur leikskólans var haldinn 6. febrúar og fóru leikskólabörn í heimsókn í Ráðhúsið og fyrirtæki, og færðu gjafir, listaverk sem þau höfðu búið til. Takk fyrir það krakkar! Á Öskudaginn var kötturinn sleginn úr tunnunni og nemendur fóru í fyrirtæki að sníkja gott í gogginn, eins og nemendur grunnskólans gerðu einnig. Í febrúar var Þorraþema í leikskólanum og unnu nemendur verkefni tengd þorranum og kvöddu svo þorrann með þorrasmakki og foreldraheimsókn.
Tónlistarskólinn - Dagur tónlistarskólanna var 7. febrúar. Nemendur fóru í "Molakaffi" í Sögumiðstöðinni og meðlimir skólahljómsveitarinnar buðu fjölskyldum sínum á opna æfingu.
Grunnskólinn
- Þann 6. febrúar fór 10. bekkur í heimsókn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN). Þar fengu þau að fara í "framhaldsskólahermi" sem felst í að eyða heilum skóladegi í FSN og fá að kynnast skólastarfinu.
- Þann 7. febrúar var Indíana Rós Ægisdóttir kynfræðingur með fyrirlestur fyrir unglingastig grunnskólans. Um kvöldið var hún svo með fræðslu fyrir foreldra og sá félagsmiðstöðin Eden um þann hluta.
- Þann 8. febrúar var Skíðadagur þar sem nemendur í 4. – 10. bekk, ásamt kennurum og starfsfólki, brugðu sér á skíði en yngri nemendur renndu sér á þotum og sleðum í skólabrekkunni.
- Öskudagsskemmtun var haldin þann 14. febrúar í samvinnu við Foreldrafélag Grunnskólans. Þar var kötturinn sleginn úr tunnunni og foreldrafélagið bauð öllum uppá snakk í lokin.
- Þann 21. febrúar komu þær Sigrún Ólafsdóttir og Ingveldur Eyþórsdóttir frá Fe´lags- og skólaþjónustu Snæfellinga með kynningu fyrir allt starfsfólk grunnskólans á framkvæmd og innleiðingu laga um farsæld barna.
- Á hlaupársdegi þann 29. febrúar var "Glitrandi dagur" og voru þá allir hvattir til að taka þátt og klæðast glitrandi fatnaði í skólanum. Var það framtak til að vekja athygli á málefnum "Einstakra barna".
Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum (SSKS) - bæjarstjóri situr í stjórn SSKS. Þann 1. febrúar fundaði stjórnin með atvinnuveganefnd Alþingis um orkumálin og frumvarp sem nú liggur fyrir í þinginu. Ennfremur undirbýr stjórn SSKS nú málþing um orkumálin, sem haldið verður 15. mars nk. Sjá hér: Er íslensk orka til heimabrúks?
1-1-2 dagurinn var haldinn þann 11. febrúar. Slökkvilið Grundarfjarðar og Björgunarsveitin Klakkur keyrðu um bæinn í bílalest og síðan var opið hús hjá Björgunarsveitinni. Sjá frétt.
Nýr forstöðumaður bókasafns og menningarmála hjá Grundarfjarðarbæ hefur verið ráðinn. Það er Lára Lind Jakobsdóttir, sem hóf störf 1. mars. Sjá frétt hér.
Grundarfjarðarhöfn - Þann 13. febrúar kom hafnarstjórn saman til vinnufundar og ræddi um forsendur fyrir stækkun og uppbyggingu hafnarinnar.
Annars voru aflatölur í febrúar á höfninni 1900 tonn (voru rúm 1500 í janúar), en til samanburðar var landað 1790 tonnum í febrúar 2023.
Skipulagsmál
Skipulags- og umhverfisnefnd afgreiddi stór skipulagsmál á fundi sínum þann 14. febrúar. Um er að ræða skipulagslýsingu fyrir breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals. Þar eru áform um nýjar byggingarlóðir innan Paimpolgarðsins, við Ölkelduveg, ofanverða Borgarbraut og Hrannarstíg. Einnig er komin fram og auglýst vinnslutillaga vegna breytinga aðalskipulags fyrir iðnaðarsvæðið við Kverná og á næstunni verður einnig gengið frá vinnslutillögu vegna deiliskipulags svæðisins. Sjá auglýsingu.
Opið hús er fyrirhugað 6. mars kl 16-17 í Ráðhúsinu, vegna þessara beggja skipulagsverkefna.
Unnið er að fleiri skipulagsverkefnum þessar vikurnar, m.a. deiliskipulagi Framness og heildarsýn um forgangsröðun skipulagsverkefna, um miðbæ og hafnarsvæði.
Bæjarstjórnarfundur var haldinn 8. febrúar. Sjá fundargerð. Bæjarstjórn hélt einnig aukafund 20. febrúar til að afgreiða og staðfesta fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, sem
Bæjarráð fundaði 28. febrúar og fékk til sín fulltrúa Skíðadeildarinnar til viðræðna um framtíðarsvæði og þjónustuhús. Einnig ræddi bæjarráð erindi Golfklúbbsins um fund og fór yfir helstu framkvæmdaverkefni ársins. Sjá hér fundargerð.
Atvinnuráðgjafi og menningarfulltrúi Vesturlands voru með viðveru í Grundarfirði 13. febrúar. Sveitarfélög á Vesturlandi standa saman að því að reka atvinnuráðgjöf, menningarmál og fleira - og eru okkar starfsmenn til þjónustu reiðubúin með fasta viðveru mánaðarlega auk þess sem alltaf er hægt að ná í þau í gegnum SSV.
Vinabæjasamskipti - í ár eru 20 ár frá því skrifað var undir vinabæjasamstarf Grundarfjarðarbæjar og Paimpol á Bretagne-skaga í Frakklandi. Ætlunin er að standa að nokkrum viðburðum yfir árið til að minnast þess.
Aðalfundur félagsins Grundapol var haldinn 13. febrúar. Grundapol eru vinabæjasamtök og systurfélag Grundapol-félagsins í Paimpol. Á aðalfundinum var kosin ný stjórn félagsins. Fundur stjórnar var síðan haldinn 20. febrúar og var hann nýttur til að ræða um afmælisárið og verkefni félagsins. Grundapol í Paimpol hefur boðið til afmælisheimsóknar og er fyrirhuguð ferð til Paimpol um miðjan október nk.
Bæjarstjóri tók þátt í fundum Grundapol fyrir hönd bæjarins. Auk þess fundaði bæjarstjóri með sendiherra Frakklands á Íslandi þann 29. febrúar, í Reykjavík, og fór yfir samskipti og tækifæri.
Sjöa vikunnar er alltaf á sínum stað.
Skíðasvæðið var opið í tólf daga í febrúar, og var mikið líf í brekkunum - síðasti opnunardagur var laugardaginn 17. febrúar.
---
Nánar um starfsemi bæjarins má síðan lesa úr myndum febrúarmánaðar sem birtar verða á Facebook á næstu dögum.