Nokkrir nemendur FSN hafa, í samstarfi við Rauða kross deildirnar á Snæfellsnesi, hafið fatasöfnun fyrir bágstadda á Haítí.

Hér fylgir fréttatilkynning frá hópnum:

Sólardagar verða haldnir í Fjölbrautaskóla Snæfellinga þann 11. - 12. febrúar nk.  Þar verður brotið upp hefðbundið skólastarf með því að skipuleggja fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir nemendur en um leið höfum við ákveðið að láta gott af okkur leiða.

Nokkrir nemendur hafa tekið að sér að fara í gang með fatasöfnun í samstarfi við Rauða Kross deildirnar á Snæfellsnesi. Ákveðið hefur verið að hafa heljarinnar Kolaportsstemningu  í skólanum þessa daga þar sem við munum selja fötin og mun allur ágóðinn renna til barnastarfs Unicef sem Rauði krossinn mun sjá um að koma áleiðis. Það eru allir velkomnir í skólann þessa daga til að taka þátt í söfnuninni og versla í FSN- Portinu.  Þau föt eða það sem þið ákveðið að gefa og ekki selst fer síðan einnig í Rauða Krossinn og rétta leið þangað sem þörfin er mest.

 

Ef þið viljið gefa föt (skór, töskur, o.fl.) þá er best að koma þeim beint til okkar í FSN. Ef þið eigið ekki möguleika á því hafið þá samband við Helgu Lind(8951662) eða Hugrúnu (8690281) og við finnum örugga leið til okkar.