- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skessuhorn 12. mars 2010:
Alls koma 13 skemmtiferðaskip til Grundarfjarðar í sumar og áfram er unnið að markaðssetningu hafnarinnar fyrir skemmtiferðaskip. Í dag heldur Shelag Smith frá Grundarfirði til Miami í Bandaríkjunum á vegum Grundarfjarðarhafnar og tekur þar þátt í stórri sýningu sem haldin er fyrir útgerðir skemmtiferðaskipa og stendur yfir frá 15. – 19. mars. “Við förum 14 Íslendingar þangað á vegum Cruse Iceland frá 11 fyrirtækjum og stofnunum að kynna mismunandi kosti fyrir farþega skemmtiferðaskipa. Ég er ekki bara að kynna höfnina heldur allt sem er í boði á Snæfellsnesi því skemmtiferðaskip koma ekki bara út af höfninni þótt hún sé góð. Það þarf eitthvað að vera í boði fyrir farþegana,” segir Shelag.
Hún segir að á þessari sýningu í Miami sé í raun allt kynnt sem útgerðir skemmtiferðaskipa þurfi á að halda. Ekki bara afþreyingarmöguleikar, fyrir farþega, heldur innréttingar í skip, matur og hvaðeina sem þarf. “Þetta er stærsta sýningin, þarna er allt til alls. Það eru sýningar í Evrópu líka en þær eru mun minni. Þessi markaðssetning núna skilar kannski farþegum í fyrsta lagi eftir tvö ár því það er alltaf bókað langt fram í tímann fyrir skemmtiferðaskipin,” segir Shelag Smith.