Að kvöldi mánudagsins 14. apríl var haldinn ,,stofnfundur” um Eyrbyggju, sögumiðstöð.

 

Um 15-20 manns mættu til fundar og hlýddu á kynningu á hugmyndinni um sögumiðstöð.

Í máli Inga Hans Jónssonar sem meðal annarra hefur unnið að undirbúningi málsins kom fram, að mýmörg tækifæri liggja í verkefninu. Fyrsti áfangi yrði að koma á laggirnar starfsemi í sögumiðstöð, sem staðsett yrði að Grundargötu 33 (Gamla Grund). Fjölmargar hugmyndir eru um hvað gæti falist í starfseminni, en gert er ráð fyrir að sýningaraðstaða, sýningahald, upplýsingaþjónusta og -miðlun, jafnvel bíósalur yrðu í húsinu. Hluta hússins væri hægt að leigja út, þar sem líkur eru fyrir því að starfsemi sögumiðstöðvar þurfi ekki allt rýmið til að byrja með.

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri kynnti hugmyndir um félagsform fyrir sögumiðstöð, en ætlunin er að þetta verði sjálfseignarstofnun, auk þess sem hún fór yfir drög að skipulagsskrá fyrir stofnunina og þau atriði sem þar þarf að taka tillit til og ákveða.

Eftirfarandi tillaga var samþykkt á fundinum og varð niðurstaða hans;

Að sett verði á laggirnar 3ja manna undirbúningsnefnd og bæjarstjóri starfi með henni.

Hlutverk nefndarinnar verði:

  • að afla stofnfjárloforða
  • að vinna úr niðurstöðum fundarins 14. apríl 2003 og gera tillögur um skilgreiningar á tilgangi og markmiðum með stofnun sjálfseignarstofnunar um Eyrbyggju, sögumiðstöð
  • að vinna tillögur um skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina
  • að boða til ,,framhaldsstofnfundar” síðari hluta maímánaðar 2003

Helstu rök:

  • Líklegt er að gefa þurfi aðilum sem vilja gerast stofnaðilar umhugsunartíma í kjölfar kynningar 14.4.2003
  • Líklegt er að ganga þurfi á eftir hugsanlegum stofnaðilum og vinna hugmyndinni enn frekara fylgis
  • Skoða þarf hugmyndir um val á leiðum, s.s. við stofnfjár- og rekstrartekjuöflun og ýmis ákvæði í skipulagsskrá
  • Á formlegum stofnfundi sé staðan sú að ofangreind atriði séu fullfrágengin og öllum ljós við stofnun sögumiðstöðvarinnar, en ekki lausir endar sem stjórn sé falið að vinna úr

Í þriggja manna undirbúningsnefnd voru kosin Gísli Ólafsson, Jóna Björk Ragnarsdóttir og Ingi Hans Jónsson. Með nefndinni mun starfa Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri.