9. júlí 2007

Síðastliðinn föstudag tók athugull vegfarandi eftir því að ófleygur örn væri við Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi. Skilaboðin bárust til Náttúrustofu Vesturlands sem fór að kanna málið. Í fyrstu var óttast að örninn kynni að hafa flogið á háspennulínu sem þarna liggur um, en svo reyndist ekki vera því hann náði að flögra um án þess þó að ná sér fyllilega á flug. Fuglinn var handsamaður og kom þá í ljós að hann var töluvert grútarblautur, líklega eftir viðureign við fýl. Ein kló var brotin og stélið nokkuð laskað, auk þess sem fuglinn var fremur rýr, sem bendir til að hann hafi verið þarna um nokkurn tíma. Án hjálpar mannsins hefði hann trauðla lifað af. Fuglinn var ómerktur en rígfullorðinn ef marka má útlitseinkenni.

 

Á heimasíðu Náttúrustofu Vesturlands kemur fram að starfsfólk stofunnar, Daníel Bergmann, stjórnarmaður í Fuglavernd og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands, komu fuglinum í Húsdýragarðinn í Reykjavík, þar sem grúturinn verður þveginn úr honum á næstu dögum og honum gefið að éta. Vonast er til að hægt verði að sleppa honum aftur sem fyrst en þó ekki fyrr en hann hefur étið vel og er laus við grútinn úr fiðrinu.

Frétt á heimasíðu Skessuhorns.