- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Er lögheimili rétt skráð?
Lögheimili á að vera rétt skráð á þeim stað sem fólk hefur fasta búsetu. Það er mikilvægt svo öll réttindi sem fylgja lögheimili séu tryggð. Einnig er það mikilvægt fyrir sveitarfélagið, því það er í lögheimilissveitarfélaginu sem hver og einn á rétt á þjónustu og þangað renna útsvarstekjur fólks.
Ert þú rétt skráð/skráður? - Hér er hægt að breyta lögheimili rafrænt.
Hvað er lögheimili?
Lögheimili er sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu, skv. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018.
Hjónum er samkvæmt lögunum heimilt að skrá lögheimili á sitt hvorum staðnum. Um lögheimili sambúðarfólks fer skv. 5. gr. laganna og um lögheimili barna, fer skv. 6. gr. laganna.
Hvað er föst búseta?
Föst búseta er á þeim stað þar sem maður hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er að jafnaði.
Þetta þýðir að lögheimili manns skal jafnan vera þar sem hann býr á hverjum tíma.
Er hægt að hafa lögheimili í hverskyns húsnæði?
Lögheimili skal skráð í tiltekinni íbúð eða húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli. Húsnæðið þarf að vera skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands (að lágmarki komið á byggingarstig 4) og þarf að hafa fengið staðfang, sbr. 2. gr. laganna um lögheimili og aðsetur frá 2018.
Ennfremur er heimilt að skrá lögheimili á stofnunum fyrir aldraða, í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og skilgreindum starfsmannabústöðum.
Í annars konar húsnæði, s.s. sumarhúsum eða atvinnuhúsnæði, er ekki heimilt að skrá lögheimili sitt.
Hvenær og hvar skal tilkynna flutning?
Tilkynna skal flutning innan 7 daga eftir að flutt er. Flutning er hægt að tilkynna rafrænt eða með því að mæta í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík eða á Akureyri. Vinsamlegast athugið að framvísa þarf löggildum skilríkjum: vegabréfi, íslensku ökuskírteini eða nafnskírteini. Hér er hægt að breyta lögheimili rafrænt.