Vinnuskólinn 2024

Vinnuskóli Grundarfjarðarbæjar verður starfræktur frá 10. júní til 19. júlí, alls í sex vikur, fyrir elstu fjóra árganga grunnskólans. Vinnutími er 6 tímar á dag á virkum dögum, nema á föstudögum, þá er unnið í 5 tíma. 

Verkefni 

Vinnuskólinn er fyrsti vinnustaður mjög margra. Undanfarin sumur hefur Grundarfjarðarbær unnið að því að þróa námsefni og verkefni vinnuskólans, sem eru fjölbreytt sambland af námi og starfi, fræðslu og hvatningu. Við leitumst sérstaklega við að vanda fræðslu, efla frumkvæði nemenda og áhuga þeirra fyrir umhverfi sínu og fyrir starfinu, að kenna rétt vinnubrögð og fagna góðu verki. 

Í sumar er ætlunin að vinnuskólinn taki upp enn frekari nýjungar í verkefnum fyrir ungt fólk, með áherslu á samfélagsleg verkefni og meiri fræðslu, umhverfismál, vinnuvernd og forvarnir. Umsjónarmaður heldur utan um undirbúning verkefna og dagskrár vinnuskólans, ásamt Ólafi Ólafssyni íþrótta- og tómstundafulltrúa Grundarfjarðarbæjar, sem hefur yfirumsjón með vinnuskóla.

Gerð verður námsskrá ásamt áætlun um dagskrá og verður það kynnt betur síðar.  

Þau sem taka þátt í allri dagskrá vinnuskólans fá greidd laun í samræmi við mætingu. Í lokin verður síðan skemmtilegt lokahóf.

Allir nemendur Vinnuskóla Grundarfjarðarbæjar fá umsögn um frammistöðu sína að sumarstarfi loknu. Atriði sem skipta máli í matinu eru: frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, stundvísi, tillitssemi og samvinna, hæfni til að taka fyrirmælum, vandvirkni, afköst og meðferð verkfæra. 

Umsjón vinnuskólans 

Steinunn Tinna Þórðardóttir hefur verið ráðin sem umsjónarmaður vinnuskóla Grundarfjarðar sumarið 2024. Steinunn er fædd og uppalin í suðurhlíðum Kópavogs en flutti til Grundarfjarðar á síðasta ári. Áður en hún flutti til Grundarfjarðar vann hún hjá Bakarameistaranum í um tvo áratugi, og sinnti þar af mannauðs- og gæðastjórn síðustu tíu árin. 

Steinunn Tinna Þórðardóttir

Hópstjóri í vinnuskólanum verður Anton Ingi Kjartansson. Þeim til aðstoðar og ráðgjafar verður Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir, leiðbeinandi í Grunnskóla Grundarfjarðar, en Ragnheiður býr að fyrri reynslu sem umsjónarmaður vinnuskóla.

Við hlökkum til skemmtilegs og uppbyggilegs sumars með nemendum og starfsfólki í vinnuskólanum okkar!

Laun 2024 eru þannig:

 

Tímakaup

7. bekkur (fæðingarár 2011)

1.197 kr.

8. bekkur (fæðingarár 2010)

1.330 kr.

9. bekkur (fæðingarár 2009)

1.596 kr.

10. bekkur (fæðingarár 2008)

 1.862 kr.

 

Umsóknareyðublöð má nálgast hjá skólaritara grunnskólans, á bæjarskrifstofu eða prenta út hér.

Mikilvægt er að skila inn umsókn í síðasta lagi 2. júní nk. Það má skila inn umsóknum rafrænt á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is, eða skila útfylltu blaði á bæjarskrifstofu eða til skólaritara. 

Nánari upplýsingar eru veittar á bæjarskrifstofunni í síma 430 8500 (milli 10-14 virka daga).

 

Vinnuskóli Grundarfjarðarbæjar