- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Bæjarstjóri fékk í síðustu viku beiðni um að fletta upp á tilteknu atriði í gamalli fundargerðarbók hreppsnefndar Eyrarsveitar frá 1947. Var það gert og umbeðnar heimildir fundnar.
Í leiðinni datt bæjarstjóri ofan í nokkrar fundargerðir í sömu bók, og eins og svo oft áður, er ekki hægt að hætta að lesa þennan fróðleik – og reyndar skemmtiefni – þegar byrjað er.
Af því að vegamál og samgöngubætur hafa verið ofarlega í huga okkar Grundfirðinga á liðnum árum og fyrir nokkrum dögum var sagt frá þverun Kolgrafarfjarðar hér í dagbók, þá er frásögn úr fundargerð frá október 1946 látin flakka hér inn í dagbókina, sem annars er ætluð til að segja frá því sem gerist í nú-inu.
Ár 1946, föstudaginn 10. okt. var hreppsnefnd Eyrarsveitar mætt á fundi í Grafarnesi til að taka ákvörðun um framhald á fyrirhugaðri vegalagningu frá Grafarnesvegi inn fyrir Gilós.
Hildimundur Björnsson vegaverkstjóri er mættur á fundinum, og tilkynnir stjórn sveitarinnar samkv. upplýsingum frá vegamálastjóra, að nú verði að stöðva þessa vegalagningu vegna fjárskorts nema að sveitarstjórnin geti útvegað fé til þess með bráðabyrgðaláni, sem svo endurgreiðist af vegafé ríkisins á næsta ári án vaxta, eða nánar tiltekið, höfuðstóll lánsins endurgreiðist 15. febr. 1947. samkv. loforði Hildimundar Björnssonar.
Stjórn sveitarinnar er öll sammála um að svo mikil nauðsyn sé á að koma þessum vegi áfram nú, að sjálfsagt sé að reyna að fá bráðabyrgðalán til að framkvæma verkið, þó um ríkisveg sé að ræða, að því tilskyldu að fyrir liggi yfirlýsing frá vegamálastjóra um að hann greiði þetta lán upp 15. febr. 1947.
Í von um að ná fé á þennan hátt til vegarins yfir Gilós ákveður sveitarstjórnin að verkinu skuli halda áfram.
Fleira ekki fyrir tekið.
Fundi slitið.
Pétur Sigurðsson Oddur Kristjánsson
Og þó það hafi ekki verið markmiðið með því að setja upp þennan texta hér, þá rifjast það upp um leið, að nú í janúar árið 2003, rúmum 56 árum síðar, ræddi bæjarráð á fundi sínum um að leggja fjármagn til uppsetningar ljósastaura meðfram þessum sama vegi og þarna var verið að leggja.
Það skondna er að bæjarsjóður mun að líkindum þurfa að ,,lána” fé til verksins, sem heyrir undir Vegagerðina, og fá endurgreitt síðar á sömu kjörum og lýst var á fundinum 1946, þar sem ekki er víst að fé verði til uppsetningar á götulýsingu að iðnaðarsvæði í áætlunum Vegagerðarinnar 2003.