- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í dag, 7. febrúar 2021, er dagur tónlistarskólanna.
Dagur tónlistarskólanna er haldinn árlega í tónlistarskólum landsins. Markmiðið með honum er að vekja athygli á fjölbreyttri og öflugri starfsemi tónlistarskólanna í landinu og eins að styrkja tengsl við nærsamfélagið.
Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hafa kennarar tónlistarskóla Grundarfjarðarbæjar ákveðið að fresta hátíðarhöldum fram á vor og mun það verða auglýst sérstaklega þegar nær dregur.
Nú í vetur hafa um 60 nemendur, frá 6 ára aldri, verið skráðir í nám í tónlistarskólann. Fjórir kennarar starfa við skólann, Alexandra sem kennir á píanó og tréblásturshljóðfæri, Baldur sem kennir á málmblásturshljóðfæri, slagverk og stjórnar samspili. Bent sér um gítar- og bassakennslu og Linda María kennir söng.
Einnig koma nemendur Eldhamra, leikskóladeildar Grunnskólans í Grundarfirði, í litlum hópum í tónlistartíma til Alexöndru.
Vegna aðstæðna gátum við ekki haldið okkar árlegu jólatónleika í lok árs 2020 en þess í stað mættu allir nemendur í upptökur og voru tekin upp myndbönd sem foreldrar fengu send fyrir jólin.
Þetta var skemmtileg tilbreyting þó við vissulega söknum þess að geta ekki haldið tónleika.
Við hlökkum þó til bjartari tíma og að geta haldið almennilega uppskeruhátíð.
Allir 6 ára og eldri geta skráð sig í tónlistarnám, það er aldrei of seint að byrja!
Stjórnendur tónlistarskóla Grundarfjarðarbæjar