- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Dagur tónlistarskólanna er 7. febrúar. Markmiðið með Degi tónlistarskólanna er að vekja athygli á fjölbreyttri og öflugri starfsemi tónlistarskólanna í landinu og að styrkja tengsl við nærsamfélagið.
Dagurinn er tileinkaður minningu dr. Gylfa Þ. Gíslasonar (7. febrúar 1917-18. ágúst 2004) fyrrverandi menntamálaráðherra. Í embættistíð hans beitti hann sér fyrir margvíslegum umbótum í skóla- og menningarmálum sem við búum enn að. M.a. gaf hann út reglugerð árið 1959 um stofnun söngkennaradeildar (síðar nefnd tónmenntakennaradeild) og síðar bættust við hljóðfærakennaradeildir. Hann beitti sér jafnframt fyrir undirbúningi að stofnun tónlistarskóla á landsbyggðinni, en þeir örfáu sem þar voru um 1960 voru einkareknir og sumstaðar við bág skilyrði og öryggisleysi þar sem skólahald gat fallið niður ef illa áraði. Vegna framgöngu hans náðu fyrstu lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla fram á 7. áratug síðustu aldar.
Úr tónlistarskólanum okkar er það annars að frétta að nú í janúar fórum við af stað með nýtt gjaldfrjálst blástursfornám fyrir nemendur í 2.-4. bekk þar sem nemendur læra á annað hvort málmblásturs- eða tréblásturshljóðfæri. Tímarnir skiptast þannig að nemendur fá 1x20 mínútna einkatíma á viku og 1x30 mínútna hóptíma/hljómsveit á viku. Kennarar eru Alexandra og Baldur.
Nýr kennari hóf störf hjá okkur um áramótin og heitir hann Valbjörn Snær Lilliendahl og kennir hann á gítar og bassa. Um leið og við bjóðum hann velkominn til okkar þökkum við Bent Marinóssyni fyrir samstarfið á liðnum árum.
Tónlistarskólinn er fyrir alla og hvetjum við fólk sem hefur átt þann draum að læra á hljóðfæri að láta hann rætast. Það er aldrei of seint að læra!
Linda María Nielsen, aðstoðarskólastjóri