- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Frétt úr Skessuhorninu 26. maí 2004:
Framkvæmdum við byggingu Fjölbrautaskóla Snæfellinga miðar vel áfram. Langt er komið með að reisa útveggi og gert ráð fyrir að því verki ljúki fyrri hluta júní en þá verður farið í þak og utanhússklæðningu, málningu og múrviðgerðir að innan.
Að sögn Konráðs Andréssonar hjá Loftorku ehf. í Borgarnesi skal fyrri hluta verksins, til að hægt verði að hefja kennslu í húsinu, lokið 20 ágúst, en húsinu þarf að skila fullkláruðu í desember. Konráð gerir ráð fyrir að þessar tímasetningar standist enda er verkið á áætlun
Loftorka ehf. hefur samið við undirverktaka um flesta verkþætti. Utanhússklæðning og ísetning glugga annast Skipavík í Stykkishólmi. Eðvarð málari í Grundarfirði og Björn málari í Stykkishólmi sameinast um málningavinnu. Byko í samráði við KristjánRagnarsson frá Hraunhálsi sér um pappalagningu á þak og Rafgrund í Grundarfirði annast raflagnir. Trésmiðja Þráins Gíslasonar á Akranesi smíðar og setur upp innréttingar og hurðir og Faglagnir ehf. í Reykjavík annast pípulagnir. Stjörnublikk sér um loftræstikerfi og lofthitun. Að sögn Konráðs er eftir að semja um innveggjasmíð og kerfisloft en viðræður standa yfir við heimamenn á Snæfellsnesi um að taka þann verkþátt.
Loks ber að geta þess að veitingahúsið Krákan í Grundarfirði sér um að allir sem koma að verkinu fái bæði gott og nóg að borða meðan á framkvæmdum stendur.
MM/Skessuhornið