Í samræmi við deiliskipulag Ölkeldudals hefur vegur fyrir framan grunnskólann verið færður til og heldur hann nú áfram og tengist annars vegar Ölkelduvegi og hins vegar vegi að íþróttamannvirkjum og tónlistarskóla.  Þá hafa bílastæðin við grunnskólann einnig verið færð til.  Með þessu nýja fyrirkomulagi breytast akstursleiðir við grunnskólann en miklu máli skiptir að umferð við skólann gangi greiðlega fyrir sig, einkum á álagstímum sem eru fyrir kl. 8 á morgnana og um hádegisbil.

 

Breytingin felst m.a. í því að vegurinn fyrir framan skólann skiptist upp í tvær leiðir.

Á milli þessara tveggja leiða hefur verið sett upp röð af grjóti til afmörkunar.  Þeir sem eiga leið að íþóttamannvirkjum, tónlistarskóla eða að Ölkelduvegi, aka veginn sem er vestan megin á planinu (hægra megin við steinana þegar komið er frá Borgarbraut og fjær grunnskólanum).

Þeir hinsvegar sem eiga leið með skólabörn í grunnskólann aka veginn sem er austan megin á planinu (vinstara megin við steinana þegar komið er frá Borgarbraut og nær grunnskólanum).  Þessi vegur er ætlaður sem einstefnuvegur og þar geta foreldrar keyrt inná, stöðvað og hleypt þar nemendum út og haldið síðan beint áfram í suðurátt og farið inn á aðalgötuna aftur.  Athugið að ekki á að snúa við á þessu stæði heldur aka beint áfram.

 

Nú á semsagt hvorki að aka í hring inni á bílastæðinu né leggja fyrir framana steinana sem eru við skólann og bakka þaðan og fara aftur niður götuna.  Þetta hefur valdið talsverðu umferðaröngþveiti við skólann á morgnana og eru ökumenn bíla því beðnir að virða þessar nýju reglur.

 

Þess má að lokum geta að grjótið sem þarna hefur verið sett til afmörkunar er aðeins til bráðabirgða og eins hefur verið óskað eftir götulýsingu á þessum stað og mun það verða framkvæmt í byrjun næsta árs.

 

Jökull Helgason

Skipulags- og byggingarfulltrúi