Tillaga vegna breytingar á Aðalskipulagi Grundarfjarðar, vegna iðnaðarsvæðis vestan Kvernár

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 vegna iðnaðarsvæðis vestan Kvernár.

Austan við þéttbýlið í Grundarfirði er iðnaðar- og athafnasvæði við Kverná. Í gildi fyrir svæðið er deiliskipulag frá 1. júlí 1999, en gerðar hafa verið nokkrar breytingar á því frá samþykkt. Nú er verið að endurskoða deiliskipulagið í heild sinni með það að markmiði að tryggja hagkvæma nýtingu á landi og auka framboð á lóðum fyrir iðnaðarstarfsemi í sveitarfélaginu. Við endurskoðun stækkar deiliskipulagssvæðið til vesturs og suðurs.

Vegna þessarar endurskoðunar á deiliskipulagi þarf að gera breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, þannig að landnotkunarreitur fyrir efnisvinnslu (náma) með auðkenni E-3 fellur út og verður hluti af iðnaðarsvæði með auðkenni I-1. Reiturinn I-1 stækkar einnig til vesturs og suðurs og verður 16,1 ha að stærð. Stærð opins svæðis (OP-5) breytist samhliða. Nánar er vísað til kynningargagna. 

Skipulagslýsing hafði áður verið kynnt (nóv-des 2023) og tillaga á vinnslustigi sömuleiðis (feb-mars 2024). Umsagnir sem bárust þá voru hafðar til hliðsjónar við gerð þessarar tillögu. 
Skipulagsstofnun hefur farið yfir tillöguna og er hún nú auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sjá stærri mynd hér

Tillagan sjálf, dags. 19. ágúst 2024, um breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 vegna iðnaðarsvæðis vestan Kvernár

Tillagan var birt í Skipulagsgátt 6. september sl.

Athugasemdum við aðalskipulagsbreytinguna skal skilað í gegnum Skipulagsgáttina, www.skipulagsgatt.is - en athugasemdafrestur við tillöguna er til og með 24. október 2024. 

Ofangreind gögn eru til sýnis á vef bæjarins (www.grundarfjordur.is), í Ráðhúsinu Borgarbraut 16, Bókasafninu Grundargötu 35 og Skipulagsgáttinni (www.skipulagsgatt.is).

Opið hús um tillöguna verður mánudaginn 23. september nk. frá kl. 12-13 í fundarherbergi í ráðhúsinu að Borgarbraut 16. 

Grundarfirði, 12. september 2024

Sigurður Valur Ásbjarnarson, 
skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar