- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Þann 11. desember sl. voru sjö Brautargengis nemendur útskrifaðir við hátíðlega athöfn á Hótel Framnesi. Brautargengi er námskeið fyrir konur sem hafa hugmyndir um viðskiptatækifæri og vilja læra aðferðir til þess að gera áætlanir og hvernig á að koma þeim í framkvæmd. Nemendur á Brautargengis námskeiðum hafa gjarnan gerst frumkvöðlar að nýsköpun atvinnutækifæra að lokinni þátttöku í námskeiðunum. Námskeiðin eru ætluð konum. Að þessu sinni útskrifuðust sjö konur sem stunduðu námið í Grundarfirði. Af þessum hópi eru fimm búsettar í Grundarfirði, ein í Snæfellsbæ og ein í Stykkishólmi. Allar konurnar hafa lokið gerð viðskiptaáætlunar fyrir þá starfsemi sem hugur þeirra stendur til og sumar eru reyndar þegar byrjaðar á starfsemi í samræmi við áætlanir sínar.
Útskriftin var haldin á Hótel Framnesi í Grundarfirði og voru viðstaddir útskriftina Arnheiður Jóhannsdóttir, verkefnastjóri Brautargengis Impru, Sigurður Steingrímsson, forstöðumaður Impru, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson bæjarstjóri Grundarfjarðar, Ólafur Sveinsson forstöðumaður SSV þróun og ráðgjöf, Hrefna B. Jónsdóttir framkvæmdastjóri SSV, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, framkv.stjóri Landnámsseturs Íslands.
Á námskeiðinu sem haldið var í Grundarfirði voru 7 konur af Snæfellsnesi:
Anna Dóra Markúsdóttir, Grundarfirði
Erna Guðný Jónsdóttir, Grundarfirði
Guðbjörg Gunnarsdóttir, Snæfellsbæ
Heiðrún Höskuldsdóttir, Stykkishólmi
Helena María J. Stolzenwald, Grundarfirði
Jóhanna H. Halldórsdóttir, Grundarfirði
Sigurborg Kr. Hannesdóttir, Grundarfirði
Sigurborg fékk viðurkenningu fyrir bestu viðskiptaáætlunina.
Um Brautargengi
Brautargengi er 70 tíma nám fyrir athafnakonur sem vilja hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd. Forsenda er að þær hafi viðskiptahugmynd til að vinna með. Kennt er einu sinni í viku í 15 vikna lotu, 4,5 klst. í senn. Á Brautargengi læra þátttakendur um stefnumótun, vöru- og þjónustuþróun, markaðsmál, fjármál, stjórnun auk annarra hagnýtra atriða við stofnun og rekstur fyrirtækja. Þá er sérstaklega farið í kynningu á persónueinkennum frumkvöðla og stjórnenda og hvað þeir þurfa að hafa til að bera til að ná árangri.
Á sjötta hundrað konur hafa lokið Brautargengi og skrifað heildstæða viðskiptaáætlun í kringum viðskiptahugmynd sem þær hafa. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var árið 2005 á árangri Brautargengis eru nú 50 - 60% kvenna sem lokið hafa Brautargengisnámi með fyrirtæki í rekstri og telja flestar að námskeiðið hafi skipt mjög miklu máli varðandi það hvort þær færu af stað með rekstur. Einnig telur mikill meirihluti þeirra að þær séu mun hæfari stjórnendur eftir að hafa lokið náminu. Um og yfir 90% þátttakenda segjast geta mælt með Brautargengisnáminu við vinkonur sínar.
Kannanir sýna einnig að hluti þátttakenda er háskólamenntaður og flest fyrirtækin sem stofnuð hafa verið eða eru í bígerð eru í verslun og þjónustu. Flest þessara fyrirtækja eru með 10 starfsmenn eða færri en þó eru nokkur með yfir 30 starfsmenn. Óhætt er því að segja að Brautargengisnám komi atvinnulífinu til góða þar sem kraftar kvenna nýtast í störfum sem annars hefðu ekki orðið til. Sérfræðingar hafa bent á það að undanförnu að mikilvægt sé að nýta krafta kvenna þar sem á íslenskum vinnumarkaði eru einungis um 27% sjálfstæðra atvinnurekenda konur.