Námskeið fyrir konur um stofnun og rekstur fyrirtækja

 

Impra nýsköpunarmiðstöð gengst nú í níunda sinn fyrir svokölluðum Brautargengisnámskeiðum á landsbyggðinni. Haustið 2007 er áætlað að halda námskeiðið á þremur stöðum á landinu, þ.e. á Patreksfirði, Grundarfirði og Akureyri. Námskeiðin eru skipulögð í samvinnu við sveitarfélög og Atvinnuþróunarfélög á hverjum stað. Alls hafa á sjötta hundrað konur víðs vegar um land lokið Brautargengisnámskeiði frá upphafi.

 

Brautargengi er 75 kennslustunda námskeið um stofnun og

rekstur fyrirtækja. Meðal markmiða námskeiðsins eru að nemendur öðlist hagnýta þekkingu á þáttum er lúta að stofnun og rekstri fyrirtækja, markaðsmálum, fjármálum og stjórnun. Einnig öðlast nemendur tengsl við atvinnulífið í gegnum fyrirlesara, leiðbeinendur og aðra þátttakendur. Kennsla mun að þessu sinni fara fram á stöðunum þremur auk þess sem þátttakendur hitta aðra hópa tvisvar á námskeiðstímanum.  Lögð verður áhersla á að kennarar hafi reynslu og þekkingu af atvinnulífinu og miðli hagnýtri þekkingu til nemenda.  Þátttakendur fá einnig handleiðslu hjá starfsmönnum Impru og hjá leiðbeinanda frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi á milli kennslustunda.

Fyrir hverja er Brautargengi?

Brautargengi er sérsniðið námskeið fyrir athafnakonur sem hafa viðskiptahugmynd sem þær vilja hrinda í framkvæmd. Einu inntökuskilyrðin eru að þátttakendur hafi viðskiptahugmynd til að vinna með, séu að hefja rekstur eða séu nú þegar í rekstri. Einnig þurfa þátttakendur að skuldbinda stig til þess að vinna að gerð viðskiptaáætlunar sinnar í heimavinnu minnst 10 klst. á viku. 

Skipulag námskeiðsins á Patreksfirði

Námskeiðið hefst með sameiginlegu hópefli hópanna frá stöðunum þremur helgina 22. – 23. september 2007. Staðsetning verður ekki ákveðin fyrr en ljóst er hvort næg þátttaka næst á öllum stöðunum.  Eftir það verður kennt einu sinni í viku, á miðvikudögum, kl. 12:30-17:00, frá september og fram í desember.

Reynsla annarra

Boðið hefur verið upp á Brautargengisnámskeið reglulega í Reykjavík síðan 1996 en á árinu 2003 var í fyrsta sinn boðið upp á námskeiðið á landsbyggðinni. Uppbygging námsins á landsbyggðinni er sú sama og á höfuðborgarsvæðinu.  Notað er sama námsefni og er námskeiðið sambærilegt að öllu leyti. Á sjötta hundrað konur hafa lokið Brautargengisnámi frá upphafi, þar af um 170 á landsbyggðinni. Samkvæmt könnun sem gerð var á árinu 2005 er um helmingur kvenna sem tekið hafa þátt í námskeiðinu frá upphafi nú með fyrirtæki í rekstri. Flest fyrirtækjanna eru með einn til tvo starfsmenn, en meðalfjöldi starfsmanna er níu.  Eftirgrennslan hefur ennfremur leitt í ljós að einungis ein af hverjum 10 konum hefur alfarið lagt á hilluna öll áform um fyrirtækjarekstur. Þó ekki hafi allar hafið rekstur eru margar enn að vinna að undirbúningi sinna viðskiptahugmynda. 

Frekari upplýsingar

Námskeiðið á Patreksfirði er í umsjón Arnheiðar Jóhannsdóttur, verkefnisstjóra hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, í samvinnu við Soffíu M. Gústafsdóttur, starfsmann Atvinnuþróunarfélags Vesturlands. Námskeiðsgjald er 38.000,- kr. á hvern nemenda, en algengt er að stéttarfélög hafi tekið þátt í greiðslu námskeiðskostnaðar. Umsóknareyðublöð og frekari upplýsingar má finna á vefsíðu Impru www.impra.is, en einnig er hægt að hafa samband við verkefnisstjóra með tölvupósti (arnheidurj@iti.is) eða hringja í síma 460 7970.