Eins og á fyrri árum þá var börnum ársins 2021 fagnað á gamlársdag, en með breyttu sniði.

Vegna sóttvarna, var að þessu sinni ekki haldið samsæti í Sögumiðstöðinni fyrir börn ársins og fjölskyldur þeirra. Þuríður Gía verkefnastjóri, Helga Sjöfn þjónustufulltrúi og Björg bæjarstjóri fóru því heim til barnanna og afhentu foreldrum þeirra gjafir og heillaóskir.

Grundarfjarðarbær, Leikskólinn Sólvellir, Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Grundarfirði ásamt fyrirtækjum í bænum hafa frá árinu 2006 boðið nýfæddum börnum í Grundarfirði velkomin í bæjarfélagið með gjöf frá samfélaginu.

Gjöfin hefur verið kölluð “sængurgjöf samfélagsins” og er hluti af fjölskyldustefnu Grundfirðinga, sem sett var 2006. Hugmyndin átti þá rætur sínar að rekja til Finnlands, þar sem tíðkast hafði að gefa nýfæddum börnum hagnýtar gjafir í kassa en kassann mátti svo nýta sem vöggu.

“Í okkar litla samfélagi skiptir hver einstaklingur miklu máli. Þetta er sú leið sem okkar samfélag fer til að bjóða nýjustu íbúana sérstaklega velkomna. Það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp barn. Þannig er þetta líka hugsað til að minna okkur öll á gildi þess að hlúa hvert að öðru, ekki síst börnunum, til að rækta gott samfélag”, segir bæjarstjóri.

Í „sængurgjöf samfélagsins“ er hverju barni færð vegleg gjöf sem inniheldur hlýjan fatnað, tannbursta, bækur og bækling frá leikskólanum, auk þess sem með fylgja leiðbeiningar til foreldra, t.d. gátlisti um öryggi barna á heimili og ýmislegt annað sem kemur að góðum notum fyrir barn og foreldra.

Við færum eftirfarandi fyrirtækjum sérstakar þakkir fyrir þeirra þátttöku í verkefninu okkar; Blossi, Kjörbúðin Grundarfirði, Björgunarsveitin Klakkur, Slysavarnarfélagið Snæbjörg og Heilbrigðisstofnun Vesturlands Grundarfirði.

Í Grundarfirði búa nú ellefu börn fædd árið 2021, sjö drengir og fjórar stúlkur. Við óskum foreldrum þessara barna innilega til hamingju og bjóðum þau velkomin heim!

 

Hér má sjá myndir af afhendingu sængurgjafa samfélagsins til nokkurra foreldra og barna. 

Helga Sjöfn, Jonas Bilevicius og Ewa móðir hans Þuríður Gía, Miroslav, Oliver og Eliska Lilja Dóra með nýfædda dömu, Símon Grétar og Elías ásamt Helgu Sjöfn

 Meida Maria ásamt foreldrum sínum, Odeta og Laimonas og systkynum, með þeim á mynd er Þuríður Gía Foreldrarnir Elí og Arna ásamt syni sínum Mikael Mána, með þeim á mynd er Helga Sjöfn María Rún og Svanlaugur Atli með Ívar Erik, með þeim á mynd er Þuríður Gía