- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skessuhorn 14. apríl 2010:
Mikið húllumhæ verður í Samkomuhúsi Grundarfjarðar þessa vikuna. Í kvöld, miðvikudagskvöld, verður frumsýndur gamanleikurinn Blúndubrók og brilljantín og verða sýningar á leiknum daglega út vikuna. Fjöldi leikara, söngfólks og tónlistarfólks stígur á svið, sem er auk gamansögu þeirra Inga Hans Jónssonar og Sonju Karenar Magnúsdóttur uppfullur af frábærri rokk- og dægurtónlist, allt frá Elvis til Jacksons. Blúndubrók og brilljantín, með undirtitilinn „Those were the days“ er samstarfsverkefni Tónlistarskólans í Grundarfirði, Grunnskóla Grundarfjarðar og Fjölbrautaskóla Snæfellinga og taka 55 nemendur af öllu Snæfellsnesi þátt í sýningunni.
Eflaust er þetta frábær sýning fyrir alla fjölskylduna, en sagan segir frá ungum manni í Grundarfirði og árið er 1963 þegar Elvis mætir Bítlunum og bítlatímabilinu er síðan fylgt inn í diskóið. Áhorfendur fylgjast með ást, sorg, gleði og baráttu þessa unga Grundfirðings.
Miklu hefur verið kostað til í Samkomuhúsi Grundarfjarðar svo sýningin geti orðið sem glæsilegust, meðal annars komið þar upp stóru hljóð- og ljósakerfi. Eins og áður segir er það Sonja Karen Marinósdóttir tónmenntakennari við grunn- og tónlistarskólann sem leikstýrir söngleiknum Blúndubrók og brilljantín.