Dagana 3. og 4. mars sl. reistu verktakar á vegum fyrirtækisins BM Vallá húseiningar í nýja viðbyggingu við hafnarhúsið, Nesvegi 2. Í febrúar hafði sökkuleiningum verið komið á sinn stað í grunni hússins. Ætlunin er að taka húsið í notkun í byrjun sumars.
Áform um bætta þjónustu
Á síðasta hausti ákvað hafnarstjórn Grundarfjarðarhafnar að ráðast í stækkun hafnarhússins og koma þar upp þjónustuaðstöðu vegna móttöku skemmtiferðaskipa. Mikil aukning hefur verið í komum skemmtiferðaskipa í Grundarfjarðarhöfn síðustu árin. Nýbyggingin er einn liður hafnarinnar í því að bæta aðstöðu og þar með þjónustu, bæði við skipagesti og starfsfólk sem tengist móttöku skipanna.
Í hluta viðbyggingar, sem snýr að Nesvegi, verður salernisaðstaða fyrir gesti, með aðgengi fyrir alla. Í hinum hluta nýja hússins, sem snýr að höfn, verður annars vegar aðstaða fyrir starfsfólk sem kemur að skipamóttöku, s.s. bílstjóra, leiðsögufólk, umboðsmenn o.fl. Hins vegar er í hluta hins nýja rýmis gert ráð fyrir stækkun á aðstöðu hafnarstarfsmanna, en afar þröngt er um starfsmenn í núverandi vinnuaðstöðu.
Samhliða því að nýjum salernum verður komið upp í þessu húsi, fyrir gesti skemmtiferðaskipa, er ætlunin að opna aðgengi að húsinu sem almenningssalernum fyrir almenna gesti, með gjaldhliði. Er því gert ráð fyrir því að almenningssalernum, sem rekin hafa verið í anddyri samkomuhúss síðan 2019, verði lokað, síðar á þessu ári. Nánari tilhögun á þessu verður kynnt síðar.
Hönnun, bygging o.fl.
Sökklar og veggir nýja hússins eru úr forsteyptum einingum með veðurkápu. Leitað var tilboða frá tveimur aðilum og á þeim grunni samið við BM Vallá um smíði, flutning og uppsetningu húseininganna. Sökklum var komið fyrir í grunni hússins um miðjan febrúar.
Gerð var verðkönnun um jarðvinnu og samið við Almennu umhverfisþjónustuna ehf. Gluggarnir eru smíðaðir í Grundarfirði, en samið var um það við Gráborg ehf. (Eiður Björnsson) sem mun setja gluggana í húseiningarnar eftir að þær hafa verið reistar.
Byggingateikningar eru unnar af W7 ehf., en hönnunarstjóri er Sigurbjartur Loftsson byggingatæknifræðingur í Stykkishólmi. Burðarþolsteikningar og neysluvatns-, loftræsiteikningar, hita- og fráveitulagnateikningar eru unnar af Verkfræðistofu Þráins og Benedikts (Hjörleifur Sigurþórsson), rafmagnsteikningar eru unnar af Rafmagnsverkfræðistofunni Tera slf. og brunahönnun af Gunnari Kristjánssyni hjá Brunahönnun slf.
Teikningar voru sendar til yfirferðar hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, á undirbúningsstigi, og komu þaðan gagnlegar ábendingar sem hafðar voru til hliðsjónar við hönnun.
Hafnarstjóri er ennfremur að láta vinna hugmyndir um endurbætur á útisvæðinu framan við húsið.
Byggingarstjóri var ráðinn frá Eflu, Fannar Þór Þorfinnsson. Meistarar að verkinu eru Eiður Björnsson byggingarmeistari, Guðni Guðnason pípulagningarmeistari, Sigurður Þorkelsson rafvirkjameistari og Eymar Eyjólfsson múrarameistari.
Steinar Þór Alfreðsson, starfsmaður hafnar, verður með daglegt eftirlit á byggingarstigi.
Skipakomur 2025
Í síðustu viku febrúar sl. var búið að bóka 78 skipakomur sumarið 2025. Fyrstu skip eru bókuð 5., 11. og 12. maí nk. og eru þau langflest að koma fram í ágústlok, örfá skip í september.
Sumarið 2026 hafa þegar verið bókaðar yfir 80 skipakomur, en allnokkuð er þó um afbókanir skipa og því of snemmt að segja til um líklegan fjölda.