Nú síðdegis fundaði bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar, ræddi og ályktaði, enn og aftur, um ástand þjóðvega á Snæfellsnesi. Ástandið hefur líklega aldrei verið verra og hafa fjölmargir vegfarendur lent í hremmingum og jafnvel stórhættu, vegna slæms ástands veganna, út af djúpum holum, ósléttu yfirborði og ekki síst vegna tjöru sem "blætt" hefur úr vegunum í hlýindum síðustu daga.

Í fréttatilkynningu Vegagerðarinnar í dag, 13. febrúar 2025, lýsti Vegagerðin yfir "hættustigi vegna bikblæðinga" m.a. á veginum yfir Vatnaleið á Snæfellsnesi (56), undir Hafursfelli (54) og að Heydalsafleggjara (54). Biður Vegagerðin vegfarendur að aka varlega á þessum leiðum þar sem hraði hefur víða verið tekinn niður í 70 km/klst. Í fréttinni er þeim sem verða fyrir tjóni bent á að senda tjónaskýrslu á mínum síðum á vef Vegagerðarinnar, tjónaskylda Vegagerðarinnar sé metin í hverju tilviki. 

Hér í fundargerð 295. fundar (liður 3) má finna bókun og ályktun bæjarstjórnarinnar, sem er eftirfarandi:

Enn á ný ræðir bæjarstjórn um samgöngumál og ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar, þar sem ástandið hefur aldrei verið verra.
Á það ekki síst við í næsta nágrenni Grundarfjarðar, á Snæfellsnesi og langleiðina suður í Borgarnes.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar var gerð samþykkt um alvarlegt ástand þjóðvegarins og var bæjarstjóra falið að óska eftir fundi með nýjum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Ennfremur var í gær haldinn fjarfundur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúa sveitarfélaga á Vesturlandi, um samgöngumál, eins og fram hefur komið.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar ítrekar fjölmargar fyrri bókanir sínar, sbr. t.d. bókun frá 12. mars 2024 og 16. janúar 2025, svohljóðandi, með (feitletaðri) viðbót: 

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir enn og aftur yfir þungum áhyggjum af síversnandi og hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi. 

Ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga.

Jarðsig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál.

Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega. Í þeim liggja mikil verðmæti sem fara forgörðum, sé viðhaldi þeirra ekki sinnt.

Síðustu daga, í febrúar 2025, hefur Vegagerðin unnið við að moka tjöru af "blæðandi" þjóðvegum á Snæfellsnesi. Fjölmargir akandi vegfarendur hafa orðið fyrir óþægindum og tjóni á ökutækjum sínum, vegna ástands þjóðveganna, þegar þykk tjara leggst á hjólbarða og aðra fleti bifreiða. Slíkt er ekki einungis hvimleitt, heldur er umferðaröryggi stórlega ógnað, auk þess sem þetta hefur þegar valdið eigendum ökutækja fjárhagstjóni.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar felur bæjarstjóra að senda erindi til Samgöngustofu. Með vísan í 5. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, um eftirlitshlutverk Samgöngustofu með samgöngumannvirkjum, óskar bæjarstjórn eftir áliti stofnunarinnar á því hvort kröfum um öryggi samgöngumannvirkja sé fullnægt á þjóðvegum nr. 54 og 56.

Samþykkt samhljóða.

 

Að loknum fundi sendi bæjarstjóri ályktunina til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, með ítrekaðri ósk um fund með ráðherra, auk þess sem erindi var sent Samgöngustofu í samræmi við ályktun bæjarstjórnar.

Vakin er athygli á því, að á vegum Grundarfjarðarbæjar hefur verið safnað saman ljósmyndum og myndbrotum af ástandi þjóðveganna á svæðinu og afleiðingum þess. Myndirnar eru úr safni íbúa og vegfarenda á Snæfellsnesi og þær má nálgast hér á Facebook-síðu bæjarins