Kattahald er bannað í þéttbýli Grundarfjarðarbæjar nema með sérstöku leyfi bæjarstjórnar. Allir kettir skulu skráðir samkvæmt samþykkt um kattahald í Grundarfirði frá 25. apríl 2006. Hámarksfjöldi katta eru tveir á heimili.

Þar sem mikil fjölgun katta er í Grundarfirði, ónæði mikið með tilheyrandi óþrifum sem af slíku verður og fáir kettir skráðir mun verða farið í aðgerðir gegn lausagöngu katta í bænum.

Á næstu vikum munu allir lausir kettir sem ekki eru merktir og skráðir handsamaðir og þeim eytt.

Ef íbúar hafa áhuga á því að vera með kött, þá þurfa þeir hið fyrsta að sækja um leyfi fyrir þeim og greiða af þeim tilskilin gjöld sem bæjarstjórn ákveður, samkvæmt 25. gr. laga nr. 7 / 1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Umsóknum skal komið til skrifstofu Grundarfjarðarbæjar sem sér um skráningu og eftirlit.

Þeir íbúar sem halda ketti eru hvattir til að lesa og kynna sér vel samþykkt bæjarins um kattahald.

 

Hjörtur Hans Kolsöe

Skipulags - og byggingarfulltrúi.

 

 

Samþykkt

um kattahald í Grundarfjarðarbæ

 

Nr. 368/2006                                                                 25. apríl 2006

Samþykkt

um kattahald í Grundarfjarðarbæ

1. gr.

Kattahald  er bannað í þéttbýli Grundarfjarðar. Kattahald í dreifbýli sætir alla jafna ekki takmörkunum. Þó getur bæjarstjórn, telji heilbrigðisnefnd brýna þörf á, takmarkað kattahald í dreifbýli.

2. gr.

Bæjarstjórn er heimilt að veita lögráða einstaklingum, sem búa í sveitarfélaginu undanþágu frá 1. gr. og leyfi til kattahalds. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang einstaklings og óheimilt er að framselja það. Leyfið er einnig bundið við þann kött sem sótt er um heimild fyrir hverju sinni.

3. gr.

Þeir sem óska eftir leyfi til kattahalds skulu sækja um það á skrifstofu bæjarins. Þar fær eigandi kattar afhenta númeraða plötu með skráningarnúmeri kattarins, sem alltaf skal vera í ól um háls dýrsins.

Árlega skulu kattareigendur framvísa vottorði dýralæknis um að kettir þeirra hafi verið hreinsaðir af spóluormum. Þá skal, ef óskað er eftir, framvísa vottorði dýralæknis um að kettirnir hafi verið hreinsaðir af öðrum sníkjudýrum sem máli skipta.

4. gr.

Skilyrði fyrir kattahaldi í fjöleignahúsum, er að hlutaðeigandi íbúðareigendur samþykki það, í samræmi við  ákvæði laga nr. 26/1994 með síðari breytingum, og skal leggja fram skriflegt samþykki þar um við skráningu kattarins. Leigutaki þarf jafnan að framvísa samþykki leigusala síns.

5. gr.

Eigendum katta  er skylt að gæta þess að kettir þeirra valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna.  Kattareigendum ber að greiða allt það tjón sem kettir þeirra valda, svo og greiðslu alls kostnaðar við að fjarlægja dýrin gerist þess þörf.

6. gr.

Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en tvo ketti eldri en þriggja mánaða á sama heimili.

7. gr.

Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum takmarka útiveru þeirra.

 8. gr.

Ekki má hleypa köttum inn á svæði þau, í fyrirtæki og stofnanir, sem um ræðir í Fylgiskjali 3 með reglugerð um hollustuhætti, inn á staði þar sem framleiðsla og dreifing matvæla fer fram, eða inn í húsnæði vatnsveitna, vatnsból og verndarsvæði þeirra, sbr. reglugerð um neysluvatn og ölkelduvatn.

9. gr.

Ef köttur hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera ráðstafanir til að finna köttinn. Bæjarstjórn er heimilt að láta handsama ketti. Sé kattar vitjað skal hann afhentur eiganda eða umráðamanni sínum gegn greiðslu áfallins kostnaðar. Bæjarstjórn  er heimilt að láta eyða ómerktum köttum, enda hafi framkvæmdin verið auglýst með áberandi hætti í  sveitarfélaginu og kettirnir geymdir í  a.m.k. 5 sólarhringa áður en þeim er lógað.

Sé kvartað undan ágangi katta er dýraeftirlitsmanni heimilt að veiða í búr og eyða ómerktum köttum án þess að það sé auglýst sérstaklega.

10. gr.

Leyfisgjald skal greiða árlega til bæjarsjóðs, eftir gjaldskrá sem bæjarstjórn setur, samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Gjaldið skal greitt í fyrsta sinn við skráningu kattarins, og síðan árlega fyrirfram 1. mars ár hvert. Hafi gjaldið ekki verið greitt innan eins mánaðar frá gjalddaga fellur leyfið sjálfkrafa úr gildi.

Í leyfisgjaldi skal m.a. innifalinn kostnaður vegna ábyrgðartryggingar sem Grundarfjarðarbær kaupir vegna katta. Tryggingin skal ná til alls tjóns sem kettir kunna að valda mönnum, dýrum og munum.

12. gr.

Með brot á samþykkt þessari skal fara að hætti laga um meðferð opinberra mála og að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998  um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

13. gr.

Framangreind samþykkt bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar staðfestist hér með samkvæmt ákvæðum  25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum til þess að öðlast gildi þegar við birtingu.

Jafnframt fellur úr gildi samþykkt um kattahald í Grundarfirði nr. 262/2004.

Samþykkt í bæjarstjórn Grundarfjarðar þann 10. mars 2005.

 Grundarfirði, 25. apríl 2006,

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri