- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á vegum félagsmálaráðuneytis er komin út skýrsla sem ber yfirskriftina ,,Átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins – fyrstu tillögur nefndar um sameiningu sveitarfélaga”.
Skýrslan er liður í samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytisins um eflingu sveitarstjórnarstigsins á Íslandi. Í ágúst 2003 var skipuð verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með verkefninu og leggja fram tillögur um breytingar á verkaskiptingu hins opinbera. Þær tillögur voru lagðar fyrir ríkisstjórn í apríl 2004.
Í desember 2003 skipaði félagsmálaráðherra svo sérstaka sameiningarnefnd sem skyldi leggja fram tillögur um breytingar á sveitarfélagaskipan með hliðsjón af breytingum á verkaskiptingu hins opinbera, og með það að markmiði að hvert sveitarfélag myndi heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði.
Við gerð tillagna sinna skyldi nefndin hafa hliðsjón af sjónarmiðum hlutaðeigandi sveitarstjórna, landshlutasamtaka og landfræðilegum og félagslegum aðstæðum. Nefndinni var falið að kynna sveitarstjórnum og samtökum þeirra tillögur sínar og veita nauðsynlega ráðgjöf um meðferð tillagnanna, þ.á m. um undirbúning og framkvæmd atkvæðagreiðslu um þær. Nefndin fékk enn fremur umboð til að leggja fram tillögur um breytingar á sveitarstjórnarlögum er miði að því að efla lýðræði í sveitarfélögum.
Í fyrrgreindri skýrslu koma fram tillögur um sameiningu sveitarfélaga á starfssvæðum allra landshlutasamtaka. Nefndin leggur til að kosið verði um sameiningu sveitarfélaga í 80 af 103 sveitarfélögum þann 23. apríl næstkomandi. Þann 20. nóvember 2004 verður atkvæðagreiðsla um sameiningu í átta sveitarfélögum. Gangi tillögur nefndarinnar, og þær viðræður sem hafnar eru um sameiningu sveitarfélaga, eftir getur sveitarfélögum í landinu fækkað úr 103 í 39.
Um Snæfellsnes segir svo í skýrslunni:
Sameiningarnefnd leggur til að íbúum Snæfellsbæjar, Grundafjarðarbæjar, Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar og Eyja- og Miklaholtshrepps verði gefinn kostur á að kjósa um sameiningu þann 23. apríl 2005. Nefndin telur að sameining sveitarfélaganna á Snæfellsnesi í eitt sveitarfélag uppfylli viðmiðið um heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði.
Nefndin telur að íbúar Snæfellsness myndi nú þegar félagslega heild, ekki síst í ljósi sameiginlegrar sögu og menningar. Auk þess eigi atvinnulíf á norðanverðu nesinu það sammerkt að byggjast að mestu á sjósókn og vinnslu sjávarafurða. Nýlega hafi Snæfellingar sameinast um stórt samfélagsverkefni, sem er Fjölbrautaskóli Snæfellinga, sem á komandi árum muni að líkindum auka enn félagslega samkennd á svæðinu.
Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni á vef félagsmálaráðuneytisins.