- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skessuhorn 3. mars 2010:
Ásbjörn Óttarsson alþingismaður hefur á Alþingi mælt fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þar leggur hann til að auk Hafrannsóknastofnunar skuli aflaráðgjafarnefnd veita sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ráðgjöf um heildarafla fisks í lögsögunni. Ráðherra skipi þessa nefnd og skuli hún við tillögugerð sína m.a. byggja á reynslu og þekkingu sjómanna og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi. Nefndin leggi áherslu á nauðsyn þess að nýta fiskistofna með skynsamlega nýtingu að leiðarljósi og að samræmis sé gætt milli tegunda.
Ásbjörn leggur í frumvarpinu til að í nefndinni verði einn fulltrúi frá hverjum eftirtalinna samtaka: Félagi skipstjórnarmanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, landssambandi smábátaeigenda, Sjómannafélagi Íslands og Sjómannasambandi Íslands. |
Í greinargerð með frumvarpinu segir Ásbjörn m.a. að tillögur nefndarinnar skuli liggja fyrir á sama tíma og tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar og hann segir að með þessu verði tryggt að reynsla og þekking sjómanna nýtist við ákvörðun um heildarafla. |