- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skemmtiferðaskipið Artemis kemur til Grundarfjarðar föstudagsmorgun 11. júlí. Skipið er 230 metrar á lengd og 44.348 tonn. Um borð eru 1200 farþegar, flestir Bretar, og 520 í áhöfn. Skipið er smíðað í Finnlandi, er í eigu P&O Cruises og er skráð í Bermúda. Artemis heimsótti okkur síðast árið 2006. Skipið er að koma frá Reykjavík og fer næst til Akureyrar. Þaðan er förinni heitið í Álasund í Noregi.
Skipið hét upprunalega Royal Princess og var vígt af Díönu prinsessu árið 1984. Síðar var nafninu breytt í Artemis, í höfuðið á grísku gyðjunni. Börn eru ekki leyfð um borð og er siglingin hugsuð fyrir farþega í leit að hefðbundinni skemmtisiglingu. Skipið er 3,5 stjarna skip og er þekkt fyrir þematengdar siglingar. Farþegar með vegabréf frá Bretlandi og Bandaríkjunum geta látið gefa sig saman af skipstjóranum, og einnig er sérstök athöfn í boði fyrir þá sem vilja endurnýja hjúskaparheit sín (er í tísku þessa dagana).
Einnig er vert að minnast á að aðeins lítill hluti farþeganna hefur skráð sig í hefðbundnar skoðunarferðir sem þýðir að töluverður fjöldi erlendra gesta gæti verið á vappi um bæinn. Tökum vel á móti þeim.