- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2011 var samþykktur við síðari umræðu í bæjarstjórn 10. maí sl. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 121 milljón kr. sem er verulega betri niðurstaða en árið 2010. Skýring á bættri afkomu er sú að á árinu voru ólögleg gengisbundin lán sveitarfélagsins endurreiknuð og voru tekjufærðar 206 milljónir kr. vegna þess. Grundarfjarðarbær hefur glímt við þrönga fjárhagsstöðu undanfarin ár og er fjármagnskostnaður sveitarfélaginu þungur. Þann 15. febrúar 2010 féll dómur í Hæstarétti þar sem segir að óheimilt hafi verið að reikna Seðlabankavexti á lánin aftur í tímann. Nota átti samningsvexti lánanna. Ef dómurinn hefur almennt fordæmisgildi munu lán sveitarfélagsins lækka enn frekar en óvist er hve mikil sú lækkun gæti orðið.
Rekstrartekjur A hluta voru 605 milljónir kr. og rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði 576 milljónir kr. Framlegð af rekstri A hluta var 10,4% en var 6,9% árið 2010. Rekstrartekjur A og B hluta samtals voru 725 milljónir kr. og rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði 652 milljónir kr. Framlegð af rekstri A og B hluta var 16,3% en var 14,1% árið 2010.
Handbært fé frá rekstri A og B hluta var 41 milljón kr. og veltufjárhlutfall 0,3 en æskilegt er að þetta hlutfall sé ekki lægra en 1.
Heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta voru 1.540 milljónir kr. í árslok 2011 og lækkuðu um 125 milljónir kr. á árinu. Hlutfall skulda og skuldbindinga af reglulegum tekjum var 197% í A hluta og 212% í A og B hluta samtals. Skuldahlutfallið hefur farið lækkandi undanfarin ár.
Eigið fé A og B hluta var 119 milljónir kr. en var neikvætt um 25 milljónir kr. árið 2010. Eiginfjárhlutfall var 7% í árslok 2011.
Megin verkefni bæjarstjórnar í fjármálum er að hækka veltufjárhlutfall og lækka skuldahlutfall. Til að ná þeim markmiðum er afar mikilvægt að fjármagnskostnaður lækki og tekjur hækki í hlutfalli við verðlagsþróun.