Á síðasta fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar voru ársreikningar Grundarfjarðarbæjar og stofnana fyrir ári 2010 samþykktir.

 

Rekstrarniðurstaða var betri en áætlað var, þó niðurstaðan hafi verið neikvæð um 16 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu að fjárhæð 33 millj. kr. Rekstrartekjur sveitarfélagsins námu 655 millj. kr. og rekstrargjöld fyrir fjarmagnsliði og afskriftir voru 563 millj. kr.

 

Frá árinu 2008 hefur sveitarfélagið, eins og önnur sveitarfélög, glímt við erfiða rekstrarstöðu. Skuldir og skuldbindingar eru nú um 254% af heildartekjum en í frumvarpi að nýjum sveitarstjórnarlögum er miðað við að það hlutfall fari ekki yfir 150%. Hluti lána sveitarfélagsins eru tengd erlendum myntum og er ekki útséð með hvernig þau lán verða reiknuð.

 

Þó skuldastaðan sé erfið þá er vandinn einkum tekjuvandi en tekjur ársins 2010 voru svipaðar í krónutölu og 2008. Í ár er ekki gert ráð fyrir hærri tekjum en í fyrra.

 

Þrátt fyrir tekjusamdrátt hefur rekstur sveitarfélagsins gengið ágætlega. Framlegð er um 14% sem er við þau mörk sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga miðar við (15-20%).

 

Á liðnu ári var gripið til margvíslegra aðgerða til að ná betri tökum á rekstrinum. Starfshlutföll á skrifstofu voru minnkuð, staða skipulags- og byggingarfulltrúa var lögð niður og sú þjónusta keypt af Snæfellsbæ og dregið var úr rekstri stofnana bæjarins þar sem það var unnt. Stór skref hafa  verið stigin til að ná betri árangri í rekstri og hér eftir sem hingað til verður gætt hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins.

 

Meðfylgjandi eru ársreikningar Grundarfjarðarbæjar og stofnana bæjarins. Ársreikninga fyrri ára og fjárhagsáætlun ársins má finna undir flipanum „Stjórnsýsla-Fjármál“.

Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar 2010

Ársreikningar stofnana og sjóða 2010