Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2005 var tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn fimmtudaginn 27. apríl sl. en samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikning á tveimur fundum í bæjarstjórn.

 

Starfsemi sveitarfélagsins er skipt upp í tvo hluta, A-hluta og B-hluta. Í A-hluta er sú starfsemi sveitarfélagsins sem fjármögnuð er með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Rekstur ársins gekk vel og var rekstrarniðurstaða í samræmi við fjárhagsáætlun ársins. Samkvæmt samstæðureikningi námu heildartekjur ársins 519,1 millj. kr. og þar af voru rekstrartekjur bæjarsjóðs 421,4 millj. kr. Af rekstrartekjum bæjarsjóðs voru skatttekjur 347 millj. kr. Útsvar var þar af 201,3 millj. kr., framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu 117,7 millj. kr. og fasteignaskattar og lóðarleiga námu 28,0 millj. kr. Rekstrarafgangur var 15,6  millj. kr. og var samkvæmt áætlun. Afkoman hefur batnað um 23,4 millj. kr. frá síðasta ári en þá var rekstrarhalli um 7,8 millj. kr. og árið 2003 nam rekstrarhalli 31,4 millj. kr. Afkoman hefur því batnað um 47 millj. kr. á tveimur árum.

 

Veltufé frá rekstri nam 74 millj. kr. og eignir sveitarfélagsins voru bókfærðar á 1,1 milljarð kr. í árslok. Ný langtímalán námu 349 millj. kr., þar af voru 251 millj. kr. vegna endurfjármögnunar eldri lána. Hækkun handbærs fjár á árinu nam 30,8 millj. kr. og var handbært fé í árslok 34,9 millj. kr.

 

Skuldir bæjarsjóðs á hvern íbúa námu 461 þús. kr. í árslok en voru 354 þús. kr. í árslok 2004. Þessi staða endurspeglar miklar framkvæmdir sem voru á árinu.

 

Annar rekstrarkostnaður nam 37,3% af rekstrartekjum. Skatttekjur á hvern íbúa námu 235 þús. kr. á íbúa en heildartekjur samstæðunnar 517 þús. kr. á íbúa.

 

Á árinu var Vatnsveita Grundarfjarðar seld til Orkuveitu Reykjavíkur. Orkuveitan skuldbindur sig jafnframt til að byggja upp hitaveitu í Grundarfirði. Vegna þessa samninga voru 110,5 millj. kr. eignfærðar sem verða afskrifaðar á 25 árum.

 

Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar 2005

Ársreikningur stofnana og sjóða 2005